Skírnir - 01.01.1965, Síða 166
AÐALGEIR KRISTJÁNSSON:
GÍSLA SAGA OG SAMTÍÐ HÖFUNDAR.
Gísla saga Súrssonar er talin rituð um miðja 13. öld. Höf-
undur hennar er ekki kunnur, og margt er á huldu um það,
úr hvaða efnivið sagan er gerð. Höfundur hennar hefir verið
Vestfirðingur, og margt bendir til, að hann hafi borið hlýrri
hug til Dýrafjarðar en annarra byggða á Vestfjörðum, og
staðþekking hans er þar örugg. Þetta nær að sjálfsögðu
skammt, þegar á að fara að leita hans, enda verður þess ekki
freistað í þessari grein, heldur verður sú þekking að nægja,
sem sagan sjálf veitir um höfundinn.
Allir hlutir eru gerðir úr nokkru efni, og sjálfsagt eru
íslendingasögur engar undantekningar frá þeirri reglu. Dr.
Björn K. Þórólfsson telur, að vísur þær, sem eru í sögunni,
séu aðalheimild hennar, en þær snerta þó aðeins höfuðvið-
burði hennar. Þar að auki hafa fræðimenn ekki verið á eitt
sáttir um aldur þeirra og að þær séu rétt feðraðar, þ. e.
ortar af þeim persónum, sem sagan segir. Víða gætir krist-
inna áhrifa, og bragarháttur 21. vísu gerir hana tortryggilega
sem 10. aldar skáldskap. Guðbrandur Vigfússon gekk meira
að segja svo langt að telja vísurnar ortar af höfundinum
sjálfum, en sú skoðun hefir fengið fáa formælendur, og enn
þann dag í dag er gátan um aldur og höfunda vísnanna
óleyst.
Hetjuhugsjónar Eddukvæða gætir mjög í sögunni, og svip-
uð efnisatriði koma fyrir í Gísla sögu og hetjukvæðunum
um Sigurð Fáfnisbana og Gjúkunga. Annars er ekki talið,
að höfundur hafi sótt mikið efni til annarra skráðra heim-
ilda, en um það verður engum getum leitt, hve mikið höf-
undur hafi sótt til arfsagna og munnmælasagna. R. Prinz
gerir t. d. ráð fyrir því í bók sinni, Die Schöpfung der Gísla