Skírnir - 01.01.1983, Page 133
SKÍRNIR SIÐFERÐI, SAMFELAG OG MANNEÐLI 127
mannsins. Þessum veruleika má lýsa sem kerfi siðareglna og
verðmæta sem er órjúfanlega tengt menningu og félagslegum
tengslum samfélagsins í heild. Menn ganga inn í þetta kerfi,
sem er forsenda alls siðgæðis, og verða samgrónir því löngu áður
en þeir taka að mynda sér sjálfstæðar og rökstuddar siðgæðis-
hugmyndir og hugsjónir. Einstaklingurinn getur aldrei fyllilega
hafið sig yfir þennan veruleika sem er botnfallinn í farvegi
reynslu hans. Með þessu er ég ekki að halda því fram að siðferði-
legt líf einstaklingsins sé einungis óvirk afleiðing félagsmótunar
og uppeldis, heldur er þetta ferli gagnvirkt og lifandi, því hinn
ábyrgi einstaklingur leggur jafnan sitt af mörkum. Páll orðar
þetta vel þegar hann segir: „Menn styðjast við siðaboð í lífi sínu
en skapa þau á sama tíma“ (100). Ég held að það sé út af fyrir
sig rétt að lýsa siðferðilegu mati sem viðbrögðum manna við að-
stæðum sínum, en þau viðbrögð eru ekki einber og einhliða
tjáning frumkennda heldur tvísýnt ferli túlkunar manna á að-
stæðum sínum sem kemur ýmist fram í samþykki eða andstöðu
við málefnið hverju sinni, og þó oft í blöndu af hvoru tveggja.
Sú dómsfelling er þó sjaldnast á sama báti og þeir hleypidómar
tilfinninganna sem oftast felast í upphrópunum eins og „húrra“
og „svei“, eins og Páll vill vera láta (92), lreldur er það einkenni
hins ábyrga og siðgæðisþroskaða einstaklings að hann vegur og
metur málavöxtu í heild (sbr. 41) og sér þá gjarnan fleiri en eina
hlið á hverju máli. Þetta viðhorf kemur vel fram í þeirri íslensku
lífsspeki að „allt orkar tvímælis þá gert er“. En það er ekki
einungis verknaðurinn sjálfur sem er tvísýnn. Það orkar jafnan
tvímælis hvað í dómsfellingu einstaklingsins er sjálfstæð tjáning
eigin viðliorfa og hvað á rætur sínar að rekja til þeirra viðteknu
siðareglna sem hafa mótað hann frá blautu barnsbeini og hljóta
að mynda alla umgjörð hugmynda hans.
Að mínu mati er það höfuðgallinn á kenningunni í Siðferði
og mannlegt eðli að ganga útfrá hugmyndinni um lítt breytan-
legt, óagað tilfinningalíf mannskepnunnar sem hægt sé að lýsa
án milligöngu þess menningarbundna túlkunarkerfis sem það
er jafnan tjáð í. Tilfinningar okkar mótast í félagslegu umhverfi
þar sem við lcernm að tjá þær og temja í samræmi við þær hefðir
og hegðunarreglur sem viðurkenndar eru í samfélaginu. Það var