Skírnir - 01.01.1986, Page 12
8
JAKOB BENEDIKTSSON
SKÍRNIR
við nám. Hvorttveggja var að Finnur hefur snemma áttað sig á
hæfileikum Jóns og Jón brást síður en svo trausti hans. Svo fór að
lokum að útgáfa Ólafs sögu varð að heita mátti verk Jóns eins,
enda þótt Johnsen hefði lagt á ráðin um fyrirkomulag í upphafi og
tekið nokkurn þátt í prófarkalestri. Mestu af handritasaman-
burðinum lauk Jón á stúdentsárum sínum, en útgáfan dróst á
langinn, m. a. vegna fjárskorts norsku útgáfustofnunarinnar
(Kjeldeskriftfondet). Sagan kom út í þremur heftum á árunum
J930-41 og er tvö stór bindi. Þessi útgáfa á einu höfuðriti ís-
lenskra bókmennta er ein hin viðamesta á nokkurri einni sögu og
er í alla staði til fyrirmyndar, vandaður texti með lesbrigðum úr
fjölda handrita, ásamt ýtarlegri lýsingu á handritunum og grein-
argerð fyrir skyldleika þeirra, allt unnið af þeirri nákvæmni og
traustleika sem einkennt hefur allar útgáfur Jóns.
Nú mætti ætla að útgáfa Ólafs sögu ásamt þeim bókum sem
taldar hafa verið hér á undan hefðu verið ærið starf samhliða há-
skólakennslu. En því fór fjarri, Jón hafði drjúgum fleiri járn í
eldinum. Ári eftir að hann lauk prófi kom út útgáfa hans á Heið-
reks sögu (1924), frumraun hans í textaútgáfu, en laus við allan
byrjendabrag. Þar gerði hann fyrstur manna ýtarlega grein fyrir
flóknu samhengi pappírshandrita af sögunni, sem mjög hafði vaf-
ist fyrir fyrri útgefendum, og hefur ekki verið um það bætt síðan.
En meiri tíðindum sættu útgáfur hans á fjórða áratugnum. Þá
gaf hann út íslenzk miðaldakvœði í tveimur bindum (1936-38),
safn helgikvæða frá síðmiðöldum. Mörg þessara kvæða eru til í
fjölda handrita, en Jón grandskoðaði þau öll og kom til skila öll-
um þeim fróðleik sem úr þeim var að hafa, jafnt lesbrigðum sem
annarri vitneskju um geymd kvæðanna. Sigurður Nordal hafði
um þessa útgáfu þau orð að óhætt væri „að fullyrða, að jafngóð
krítisk útgáfa hafi ekki áður verið gerð af neinum íslenzkum text-
um - og jafnvel þó að víðar væri leitað“. Um sama leyti gaf Jón út
1. hefti Byskupa sagna (1938), þar sem megintextinn var Hungur-
vaka, og er sú útgáfa gerð af engu minni nákvæmni. Framhald
þessarar útgáfu gaf hann út löngu síðar í Editiones Arnamagnæ-
anœ (1978), en þar voru í einu bindi Þorláks saga og Páls saga.
Enn gaf Jón út Ljóðmæli Bjarna Thorarensen I—II (1935) með
sömu vandvirkni og um fornan texta væri að ræða. Þar var notað