Skírnir - 01.01.1986, Page 22
18
MATTHÍAS JOHANNESSEN
SKÍRNIR
Þegar við vorum komnir vel inn í nýja árið fór Jón Helgason að
tala um það hann vildi ég skrifaði nekrólóg um sig -,,og þú mátt
hafa hann eins vitlausan og þú vilt,“ bætti hann við. Nokkrum
klukkustundum áður, eða þegar við stóðum í upphafi kynningar
okkar og samtals (við höfðum aldrei hitzt áður) sagðist Jón dást
mikið að vestfirðingum, þeir hefðu gengið svo vel fram í því að
drepa galdramenn. Trú sem hefði verið forsenda þess að fólk
brenndi næsta nágranna sinn, sem hefði kannski smalað með því
í síðustu réttum, hefði ekki verið neitt blávatn. Og fyrir slíkri trú
og slíkum sannfæringarkrafti bæri hann mikla virðingu: „Mér er
t.a.m. meinilla við þig og ég veit það er gegenseitigt,“ sagði hann,
„en dytti t.a.m. ekki í hug að brenna þig.“ „Það er vegna þess að
sannfæringin fyrir meinillsku þinni er ekki fyrir hendi,“ sagði ég.
„Alveg rétt,“ sagði hann.
Og ísinn var brotinn.
Jón Helgason kvaðst alltaf tala norðlenzku í fyrirlestrum og
upplestrum, sunnlenzkan hljómaði eins og suð sem enginn skildi.
Hann sagði þetta í virðingarskyni við Hönnu og átthaga hennar,
en konur eiga greiðan aðgang að hjarta hans eins og Árna Magn-
ússonar. Honum þótti illt að hún væri hætt að radda upp á norð-
lenzku. Ég sagði honum að hljóðfræðilegar rannsóknir hefðu sýnt
að sunnlendingur gæti aldrei lært að radda upp á norðlenzku, ekki
frekar en norðlendingur gæti lært hv-hljóðið sunnlenzka. Þá
hrökk hann við, ég held hann sé eitthvað að hugsa um þetta
ennþá. Einnig sagði hann mér að hann hefði hitt kerlingu sem
hefði sagt Hornafjörður upp á skaftfellsku og orðið svo glaður að
hann hefði jafnvel elt hana á röndum og drukkið með henni kaffi
til að fá að heyra eitthvað meira skemmtilegt af vörum hennar.
„En það kom ekkert fleira sem skipti máli.“ Maður getur rétt
hugsað sér hvernig Jón Helgason hefur litið á þessa tímasóun.
Aftur á móti hefur hann aldrei hitt nokkra manneskju sem hefur
sagt: hönum, sem var algengt áður fyrr og Bjarni Thorarensen
skrifaði alltaf. Ég held þetta „hönum“ sé Gral Jóns Helgasonar.
„Þegar þú hittir einhvern sem segir það, þá ertu dauður í al-
vöru,“ sagði ég. Samt þráir hann að heyra þetta orð af vörum ein-
hvers, en er nú að gefa upp alla von að það verði í þessu lífi.
Sennilega hrekkur hann mikið við, þegar hann heyrir þetta