Skírnir - 01.01.1986, Page 25
KRISTJÁN ÁRNASON
Mótsögn og miðlun
Inngangur að heimspeki Hegels
FYRIR RÚMRI hálfri annarri öld, eða í nóvembermánuði árið
1831, geisaði kólerufaraldur í Berlínarborg, og hefði það vart
þótt í frásögur færandi hér og nú, ef hann hefði ekki lagt að velli
mann sem mjög sópaði að í andlegu lífi Evrópu um þær mundir og
var einkum nokkurs konar jöfur heimspekilegra fræða í álfunni
og naut óvenju mikils álits og frægðar sem slíkur. Þetta var enginn
annar en hugsuðurinn Georg Wilhelm Friedrich Hegel, prófessor
við Berlínarháskóla, þá 61 árs að aldri, en hann fæddist í þennan
heim árið 1770. Nú væri að sjálfsögðu harla fánýtt að velta vöng-
um yfir því, hvort þessum jöfri heimspekinnar hefði betur hæft
annar dauðdagi en þessi, enda eru sóttir af þessu tagi frægari fyrir
annað en að fara í manngreinarálit, því þær ganga, sem kunnugt
er, jafnt yfir alla, réttláta sem rangláta, lærða sem leika, og það er
ekki við því að búast að allir heimspekingar láti lífið á jafn eftir-
minnilegan hátt og Sókrates forðum, sem drakk eitur, eða þá
náttúruspekingurinn Empedókles, sem á að hafa steypt sér í
Etnugíg, eða stóikinn Krýsippos, sem á að hafa dáið úr hlátri.
En nú vill svo til að sá sem hér á í hlut er einmitt sá meðal hugs-
uða sem mest gerði sér far um að líta á rás sögunnar ekki sem runu
tilviljunarkenndra og sundurlausra staðreynda heldur sem
skynsamlegt samhengi, og gæti það að minnsta kosti orðið okkur
tilefni hér til að hugleiða fráfall hans út frá því sjónarmiði hvort
það hafi mátt teljast tímabært eða ótímabært eða hvort það marki
einhver söguleg tímamót.
Frá sögulegum sjónarhóli má ef til vill segja að dauði Hegels
ásamt dauða Goethes hálfu ári síðar marki endalok þess tímabils
í menningarsögu Evrópu sem kenna má við klassík, en þar fyrir
utan verður fráfall Hegels vart talið mjög ótímabært að því leyt-