Skírnir - 01.01.1986, Page 29
SKÍRNIR
MÓTSÖGN OG MIÐLUN
25
fyrir andstæðum og mótsögnum lífsins og tengja þær saman á
þann hátt að þær verði lifandi og virkar.
En auðvitað vaknar hér sú spurning, hvaða andstæður það
einkum eru sem Hegel hefur í huga, þegar hann ritar þessi orð, en
þá mætti ætla, ef við skoðum fyrstu ritsmíðar Hegels sem fjalla
um stjórnmálaleg og guðfræðileg efni að andstæðnanna sé eink-,
um að leita á þeim sviðum. í þjóðfélaginu blöstu við hrikalegar
andstæður milli ríkisvalds og þegna, heildar og einstaklings,
kúgara og kúgaðra, afturhalds- og byltingarafla, og afstaða Heg-
els til þess arna er að mestu leyti í anda umbótasinnaðra upplýs-
ingarmanna. Einkennandi fyrir hann er tilhneiging hans til að
rekja sögulegar orsakir og rætur ríkjandi ástands, og honum hætt-
ir því síður til en ýmsum öðrum að slá fram staðleysis-þjóðfélags-
hugmyndum úr lausu lofti. Og á grundvelli þessarar sögulegu við-
miðunar getur hann gagnrýnt þjóðfélagsgerð nýaldar fyrir það að
þar miði allt að því að vernda sérréttindi, sérhagsmuni og eignar-
rétt og viðhalda vélrænu markaðskerfi, þannig að ríkjandi andi
verði sérhyggja einstaklinga, þar sem aftur á móti gríska borgrík-
ið var reist á samheldni og samhyggju og ríkið sjálft ekki framandi
afl heldur miðlandi, þannig að einstaklingarnir stóðu í lifandi
tengslum hver við annan. Staða kristindómsins í þessu þjóðfélagi
verður honum einnig umhugsunarefni um þessar mundir og sögu-
legar forsendur hennar sem hefjast með mótun hans við að verða
ríkistrú í Rómaveldi og ánetjast veraldlegu valdi í ríki sem ein-
kenndist af magnleysi og þjóðfélagslegri firringu einstaklinga og
þörf þeirra til að leita lífsfyllingar utan eða ofan mannlífsins.
Þessar hugsanir um ríki og trúarbrögð sem Hegel setur fram í
upphafi ferils síns verða grundvöllur undir það sem hann gerir
síðar ítarlegri skil í söguspeki og stjórnspeki sinni. En þær and-
stæður sem við snúum okkur að fyrst ná dýpra og eru á fræðilegra
sviði, en það eru andstæðurnar milli hins innri veruleika og hins
ytra, hins huglæga og hins hlutlæga, vitundar og verundar, hugar
og heims sem svo mjög setja svip sinn á þróun vestrænnar heim-
speki nýaldar allt frá dögum Descartes og hafa orðið viðfangsefni
þeirrar greinar sem við köllum þekkingarfræði. Þar sem öll þekk-
ing hlýtur að vera reist á sameiningu eða samleik þessa tvenns, þá