Skírnir - 01.01.1986, Page 32
28
KRISTJÁN ÁRNASON
SKlRNIR
þurru landi. í Fyrirbrigðafrœði andans steypir hann sér því til
sunds og sýnir hina einstöku vitund í hafróti þeirra strauma sem
bera hann fram og aftur, en þeir sem vilja þreyta sundið með hon-
um verða að vera djúpsyndir, ef þeir vilja ekki missa sjónar af
meistaranum, því Fyrirbrigðafræði andans hefur ævinlega þótt
þyngst aflestrar ailra bóka Hegels og það þótt henni hafi verið ætl-
að að vera inngangsrit að fræðum hans.
Hitt mun ekki fara fram hjá lesanda, svo enn sé haldið líking-
unni, að hér er ekki um neitt hundasund að ræða, heldur er sund-
ið þreytt með föstum tökum og reglubundnum, það er að segja
með ákveðinni aðferð, en það er sú aðferð sem að dómi Hegels
ein megnar að veita okkur heildarsýn yfir veruleikann og sj á hlut-
ina, ekki sem einangraða, afmarkaða og óvirka heldur í lifandi og
virku samhengi. Petta er hin svonefnda díalektíska eða gagnvirka
hugsun, en sú aðferð á, eins og raunar flest sem viðkemur heim-
speki, rætur sínar að rekja til Forn-Grikkja, og er orðið dregið af
gríska orðinu yfir að tala saman, dialegesþai, og merkir því sam-
talslist. Sú list er hins vegar hvergi iðkuð af meiri snilli en í svo-
nefndum „díalógum“ eða samtölum eftir Platon, þar sem sam-
talshetjan Sókrates útlistar hugtökin með því að tefla fram hverju
á eftir öðru sjónarmiðum sem við nánari eftirgrennslan reynast
mótsagnakennd og ófullkomin og kalla á ný og haldbetri, líkt og
sæfari í sjávarháska kallar á hjálp. Ósjaldan endar þessi glíma við
hugtökin á þann veg í samtölum Platons að viðmælendunum virð-
ist þeir vera enn fjær sannleikanum en þegar þeir lögðu upp, og
það getur jafnvel komið í ljós að hugtökin séu sjálf mótsagna-
kennd í sjálfum sér, þannig að það megi með jafnmiklum rétti
halda fram andstæðum skoðunum um hið sama. Á grundvelli
þess arna notar Immanúel Kant orðið „díalektík“ um þær þver-
sagnir sem hin hreina skynsemi lendir í, þegar hún hættir sér út í
dóma um hið yfirskilvitlega eða um heiminn í heild sinni, og fær
orðið því þar heldur neikvæða merkingu.
En í augum Hegels eru mótsagnir einmitt það sem gefur öllu
líf, og við skyldum því ekki forðast þær eða leiða þær hjá okkur
heldur elta þær uppi fyrir alla muni og virkja þær, því það er ein-
mitt stríð þeirra sem knýr okkur til að leita hins þriðja, hins nýja,
sem megnar að „hefja þær upp“ (aufheben) eins og hann kallar