Skírnir - 01.01.1986, Page 33
SKÍRNIR
MÓTSÖGN OG MIÐLUN
29
það, líkt og beljaki lyftir hvolpum tveim, þannig að þær verði
virkir liðir í víðara samhengi, en orðið að „hefja upp“ hjá Hegel
felur í sér í senn það að „nema úr gildi“ og að „varðveita“. Día-
lektíkin er því aðferð sem færir okkur uppávið með sínýjum miðl-
unum mótsagna og andstæðna, og í Fyrirbrigðafrœði andans er
þróun þekkingarinnar rakin frá fyrstu og lægstu stigum hennar,
sem er vissa um einstaka og afmarkaða hluti sem slíka, í þá átt að
vitundin uppgötvar æ meir sjálfa sig að verki og nær því að lokum
að birtast sjálfri sér sem grundvöllur alls veruleika og eigið
viðfang. Þessi stigþróun er þannig knúin af innri mótsögnum
h vers sj ónarmiðs eða stigs um sig, og stríð þeirra verður j afnframt
einskonar fæðingarhríðir nýs sjónarmiðs eða stigs, og þannig birt-
ast smám saman meginþættir vitundar, en þeir eru: í fyrsta lagi
hlutvitund og skilningur, í öðru lagi sjálfsvitund, í þriðja lagi skyn-
semi og í fjórða lagi siðferðisvitund eða andi.
Á fyrsta og neðsta stigi vitundarinnar skoðar hún veruleikann
sem safn einangraðra og sjálfstæðra staðreynda eða hluta, sem
hún hefur beina vissu um og fellir einfalda dóma um, á borð við
„nú er nótt“, „hér er tré“ eða „þetta er kringlótt borð“. En þau
hugtök sem hér eru notuð „nú“, „hér“ og „þetta“ reynast við nán-
ari athugun harla innantóm og án ákveðinnar samsvörunar í hinu
ytra, öllu heldur eru þessi orð afmarkandi og gera því meira að
tengja á neikvæðan hátt þessa tilteknu reynslu við eitthvað utan
hennar. Það sem til að mynda ég kalla „nú“ hefur enga sjálfstæða
veru heldur táknar eitthvað hverfandi milli liðins og óorðins. Það
er raunar alltaf þegar liðið, er ég nefni það, og því varla óhætt að
festa staðhæfingar með orðinu „nú“ á blað. Þegar ég tala um
„þetta“ eða „þennan hlut“, er ég í dómi mínum öðru fremur að
útiloka allt það sem er ekki „þetta“ eða alla hina hlutina og setja
það sem ég vil einangra í samhengi við þá. Allt tal og öll hugsun
um það sem eiga að vera einstakir og einangraðir hlutir hrífur þá
upp úr einangrun sinni og gerir þá að einhverju almennu. Sjálft
hugtakið „einstakur hlutur“ er almennt og tengir saman alla þá
hluti sem eiga einstakleikann sameiginlegan (og hlutleikann að
auki), en þeirra tala er legíó og enginn þeirra í þeim skilningi
raunverulega einstakur.
Ef ég nú reyni að ákvarða eða einkenna þann hlut sem birtist í