Skírnir - 01.01.1986, Síða 42
38
KRISTJÁN ÁRNASON
SKÍRNIR
í myrkri. En það sem er einkum athyglisvert við afstöðu Hegels til
kristindómsins er, að fremur en að tengja hann gyðingdómi lítur
Hegel á hann sem rökrétta afleiðingu af þeim aðstæðum sem voru
í Rómaveldi og í framhaldi af og sem andsvar við þeirri menning-
arlegu þróun er orðið hafði í hinum grísk-rómverska heimi. Þegar
hann því einkennir kristindóminn sem „opinberuð trúarbrögð“,
er sem sú opinberun sé þó fremur óhjákvæmilegur liður sögu-
legrar þróunar í fornöld en að hún hafi eitthvað yfirnáttúrulegt
eða utanaðkomandi að baki. Og andstætt því sem margir telja, að
kristindómurinn boði fráhvarf frá manngyði Forn-Grikkja leit
Hegel á kristindóminn sem hámark manngyðis, þar sem þunga-
miðja hans sé kenningin um holdtekjuna, kenningin um guð-
manninn, Þeanþropos, sem fæðist og deyr krossdauða hér á jörð,
en lifir þó áfram, sem heilagur andi, hvar sem tveir eða fleiri eru
saman komnir í hans nafni. Af þeim sökum túlkar Hegel kristin-
dóminn þannig, að Guðinn hafi stigið niður á jörðina og sem sam-
runa og sátt hins eilífa og hins stundlega, guðdóms og manns.
En þannig verða og hin opinberuðu trúarbrögð skilin sem
undanfari þess lokastigs í fyrirbrigðafræði andans sem Hegel
nefnir „hina alyfirtæku þekkingu“, og felst í því að hlutveruleik-
inn er skilinn sem þáttur allsherjar sjálfsveru, hlutgerving hennar
og endurspeglun. En hin alyfirtæka þekking er ekki niðurstaðan
heldur allt það ferli sem leiðir til hennar, og hún felur því í sér
upprifjun, en ekki þó í sama skilningi og Platon kennir, þ. e. a. s.
upprifjun frummynda úr fortilveru, heldur upprifjun mannsand-
ans á eigin sögu og skilningur á henni sem rökrænu og óhjákvæmi-
legu heildarsamhengi, en þannig birtist hún heimspekingum að
lokum sem Bakkusarganga sögunnar, sem Hegel nefnir svo og
lýsir í Fyrirbrigðafrœði andans. Þessi Bakkusarganga mætti raun-
ar öðru fremur kallast sigurganga heimspekilegrar hughyggju, og
sigurvíman sem ríkir í síðasta kafla bókarinnar, kaflanum um
hina alyfirtæku þekkingu, sprettur af því að hér þykist Hegel hafa
endanlega sætt og sameinað þær andstæður sem fyrri tíma heim-
spekingar hafa löngum glímt við: andstæðurnar miklu milli skyn-
heims og hugheims, veru og vitundar, viðfangs og sjálfs, hins ytra
og hins innra, með því að allt hið fyrrnefnda birtist hér hugver-