Skírnir - 01.01.1986, Page 46
42
KRISTJÁN ÁRNASON
SKÍRNIR
mynd (absolute ldee) sem er grundvöllur allrarveruog einnighins
hlutlæga og hins huglæga, endanlega og óendanlega og felur í sér
alla þróun og allt líf, og þegar hún birtist hér sjálfri sér í heim-
spekinni, verður öll tilvera sem lokað ferli eða hringur.
Af þessu fátæklega ágripi má sjá að Rökspeki Hegels er einna
líkust því sem stokkið sé milli hárra fjallstinda, og vissulega getur
venjulegu fólki orðið erfitt um andann í þessum háloftum hugtak-
anna. En engu að síður er þessi heildarsýn yfir tilveruna sem
stöðuga og óhjákvæmilega verðandi, sem fer fram með stríði
andstæðna og stökkum upp á við, ekki laus við að geta haft áhrif
á afstöðu okkar til hinna afmörkuðu aðstæðna sem við lifum við,
og það er til að mynda með þessa rökfræði í huga sem rússneskur
byltingarmaður lét svo um mælt að heimspeki Hegels væri „al-
gebra byltingarinnar“. Og þess má einnig geta að forkólfur téðrar
byltingar, Lenín, las á sínum tíma Rökspeki Hegels með mikilli
áfergju, en af athugasemdum hans við hana má að vísu sjá, að
hann tók það úr henni sem honum hentaði en vísaði hinu á bug
sem hann taldi „hughyggjuþrugl“. En hinn skæði gagnrýnandi
Hegels, Sören Kierkegaard, tók þessari rökspeki með enn meiri
fyrirvara, og hann skrifaði hjá sér að rit á borð við þetta hefði í
rauninni átt að birtast án höfundarnafns, útgáfuárs og tiltekins
prentstaðar og aðeins sem hreinn leikur að hugsunum, og þá
hefði höfundurinn kannski mátt teljast mesti hugsuður í heimi, en
úr því hann gerði það ekki, væri hann nánast hlægilegur. Kierke-
gaard þótti einkum undarlegt að hugtakið „raunveruleiki“ kæmi
ekki fram fyrr en í miðju kafi úr hinni miklu hugtakasmiðju
Hegels, en á því hugtaki vildi hann hins vegar byggja alla heim-
speki og átti þar við raunverulega tilveru lifandi einstaklinga.
En skilningur Hegels á hugtakinu veruleiki var frábrugðinn
skilningi margra annarra, og sú saga er sögð af honum að ein-
hverju sinni, er maður nokkur kvartaði við hann yfir því hve lítt
honum þótti heimspeki Hegels koma heim við raunveruleikann,
hafi Hegel svarað að bragði: „Það er þá verst fyrir raunveruleik-
ann“. En vilji menn, eins og andríkur maður hefur gert, líkja
Rökfræði Hegels við þanka Skaparans fyrir sköpun heimsins, þá
geta menn ekki sakað Hegel um að hafa ekki farið að dæmi
Skaparans og birt hinar hreinu hugmyndir sínar í áþreifanlegri og