Skírnir - 01.01.1986, Page 79
SKÍRNIR HETJUDAUÐI STURLU SIGHVATSSONAR
75
q) en síðar er sigurvegurunum refsað af hefnigj örnum
bandamönnum eða landsmönnum hennar.
Atriði þau sem Rosenberg nefnir, en Hermann ekki, er einnig
flest að finna í frásögninni af Örlygsstaðafundi á einn eða annan
hátt. Fregnin um að her Gissurar og Kolbeins unga ríði að Sturl-
ungum berst nokkru áður en til átaka kemur, en það hvarflar ekki
að Sturlu að flýja. Lið Sturlu verst hraustlega, en Kolbeinn Sig-
hvatsson og menn hans renna af hólmi áður en til verulegs bar-
daga kemur. Orrustan á sér stað í hlíðinni upp frá Miklabæ og
Víðivöllum, en Sighvatur kemur ofan frá Sólheimum meðfram
fjallinu með lið sitt. Aðstoð hans berst þó of seint, enda brostinn
flótti í liðið. Sturla leitar samt ekki undankomu, heldur berst til
þrautar með spjótinu Grásíðu eins og áður sagði. En spjót þetta
hafði samkvæmt Gísla sögu verið gert af sverðsbrotum.17 Þegar
Sturla er fallinn er bardaganum raunar lokið þótt fleiri séu teknir
af lífi síðar. Hins vegar komast margir liðsmenn Sturlu heilir af
þessum fundi, svo að þar er mynstrinu ekki fylgt. En ljóst er að
enginn hefur borið fréttina um átökin víðar en Sturla sagnaritari
og orðstír nafna síns, þótt tvíræður sé, ekki síst vegna þess að það
eru Norðmenn sem þykir mestur skaði eftir Sturlu, en andstæð-
ingarnir unna honum engrar sæmdar.
Það ætti nú að vera ljóst að lýsing íslendinga sögu á falli Sturlu
Sighvatssonar minnir ekki aðeins á frásagnir af dauða fornkappa
á borð við Gísla Súrsson og Gunnar á Hlíðarenda, heldur einnig
af falli Sáls konungs, Rolands, kappa Karlamagnúsar konungs,
og Davíðs Crocketts, svo að nokkrir séu nefndir. Og þó eru enn
ekki öll kurl komin til grafar.
Bæði Hermann Pálsson og Rosenberg nefna frásögn biblí-
unnar af krossfestingunni sem eins konar hliðstæðu við lýsingar á
hetjudauða í bókmenntum.18 Hermann bendir á að oft séu tveir
menn í fylgd hetjunnar þegar hún er drepin, rétt eins og Kristur
var krossfestur ásamt tveimur ræningj um. Annar mannanna styð-
ur hetjuna, hinn svíkur hana á einhvern hátt. Fyrir liði Sturlunga
á Örlygsstöðum fara ásamt Sturlu aðallega Sighvatur faðir hans
og Kolbeinn Sighvatsson. Sighvatur fylgir syni sínum í dauðann,
en allmikið er gert úr því í frásögninni að Kolbeinn hafi brugðist,