Skírnir - 01.01.1986, Page 87
SKÍRNIR
AUÐUR OG EKLA
83
að allir verði biskupar, sem eru barðir. Og svona er það líka um
blessaða fátæktina. Það er ekki nóg að einblína á það, sem íslend-
inga skorti, hvort sem það var nú munaðarlífi hversdagslega eða
tækifæri til afreka í hernaði. Margar aðrar þjóðir hafa búið og búa
enn við jafnórífleg kjör að þessu leyti án þess að geta bætt sér það
með nokkurri menntastarfsemi, hvað þá með því að semja önnur
eins rit og beztu íslenzkar fornsögur. íslendingar sjálfir hafa
stundum síðar verið miklu snauðari og aðkrepptari en á 13. öld og
það hefur ekki borið aðra eins ávexti. Hér verður því að athuga
fleira, enda er það óbeinlínis gefið í skyn, bæði af hinum danska
sagnaritara um 1200 og hinum norska 700 árum síðar, þó að þeir
hafi ekki gert það svo skýrt sem skyldi.
II
Platón leggur í Symposion (Samdrykkjunni) Sókratesi í munn
merkilega goðsögn eða dæmisögu um ætt og uppruna ástarinnar.
Svo hafi einu sinni borið til eftir afmælisveizlu Afródítu, að
Poros, persónugervingur allsnægtanna, sem við getum kallað
Auð, hafi lagzt til hvíldar höfugur af drykkju ódáinsveiga. Þá hafi
komið þar aðvífandi Penia, persónugervingur fátæktarinnar, sem
við getum nefnt Eklu og laðað hann til samfara við sig. Þau gátu
Eros, ástarguðinn. Honum bregði í báðar ættir, sé fátæklega til
fara, síleitandi og síóánægður eins og móðir hans, en í aðra rönd-
ina djarfur, útvegagóður og fengsæll sem faðir hans. í raun réttri
er þessi saga Platóns að hugsun náskyld frásögn Snorra í Gylfa-
ginningu um upptök lífsins sjálfs: að það hafi kviknað í mótum
hríms og elds, kulda og hita. Báðum þessum spekingum er ljós
nauðsyn andstæðna, ósamræmis og baráttu, til þess að eitthvað
skapist eða gerist. Til alls framtaks, hvort sem það kemur fram í
veraldlegum eða andlegum athöfnum, þarf brýningar Eklu, að
menn finni, að þá skortir, þeir girnist eða eigi á hættu að missa
eitthvað. En úr því verða hvorki menntir né aðrar framkvæmdir,
nema menn njóti Auðar við með nokkrum hætti, hafi eitthvað í
veltunni, einhver efni úr að spila og tæki til þess, sem gera skal.
Fátækt getur því að eins verið hvöt til að leita sér úrbótar, að
menn viti um hana, séu óánægðir með hana, hafi eitthvað til