Skírnir - 01.01.1986, Blaðsíða 90
86
SIGURÐUR NORDAL
SKÍRNIR
að siðum og menningu suðrænna þjóða, þegar fyrsti víga-
móðurinn er runninn af þeim, enda var munurinn á menningar-
stigi geysimikill. Rómverjar á hinn bóginn voru ýmist í vörn eða
varnarsókn, því að innrásir þeirra í Germaníu vorufremur gerðar
til þess að tryggja landamæri ríkis síns en af ágirnd til yfirdrottn-
unar þessara barbara og landa, sem þeim fannst lítill slægur í.
Þegar Rómverjar fóru að taka germanska hermenn í þjónustu
sína til varnar gegn frændum þeirra, varð það örlagaríkt. Það
stuðlaði bæði að flutningi suðrænna áhrifa norður á bóginn og
frekari aðdrætti suður um leið og Germanar kynntust dýrð og
veikleika Rómaveldis, og sáu sér leik á borði. En önnur heims-
veldisstefna, sem ekki var eins stórlát og hin rómverska og ekki
hugsaði um nein landamæri, kom bráðlega til sögunnar sunnan
frá, eftir að kristnin hafði læst sig um Rómaveldi.
Um 800 má nær undantekningarlaust heita, að allir þeir þjóð-
flokkar, sem höfðu farið út yfir endimörk Germaníu hinnar fornu
á meginlandinu, séu glataðir germanskri menningu í þrengri
skilningi, hversu glæsileg sem örlög þeirra annars urðu. Þeir hafa
týnt tungu sinni, lífsskoðun og félagsháttum, runnið saman við
þær þjóðir, sem fyrir voru í hinum nýju heimkynnum þeirra, þótt
þeir settu líka nokkurt mót á þær. Gotar einir af þessum flokkum
höfðu öðlazt svo mikla bókmenntun, áður en þeir gleymdu móð-
urmáli sínu, að þeir hafi látið eftir sig á því máli rit, sem er þó ekki
annað en þýðing. En frá sumum þessara flokka eru runnar fornar
minningar, sem varðveittust annars staðar á þjóðtungunni, auk
þess sem nokkuð af þeim var skrásett á latínu af sagnariturum,
sem voru af germönsku bergi brotnir.
Af útrásarflokkunum auðnaðist Engilsöxum einum að ryðja
germönsku þjóðerni til nýrra landa til frambúðar, er þeir tóku
England af Keltum og Rómverjum. Þeir nutu þess, að þeir komu
til eylands, þar sem þeir gátu athafnað sig í betra næði og þar sem
hin rómverska menning var ekki orðin rótgróin. Nánustu frændur
þeirra, Saxarnir á meginlandinu, sóttu líka suður á bóginn, en
ekki út yfir takmörk Germaníu. Hvorir tveggja urðu fyrir sókn að
sunnan, en hvorir með sínu móti. Engilsaxar kristnuðust
snemma, og fyrr en Saxar, en héldu pólitísku sjálfstæði sínu. Sax-
ar háðu síðustu úrslitastyrjöld hinna suðlægari heima-Germana