Skírnir - 01.01.1986, Síða 92
88
SIGURÐUR NORDAL
SKÍRNIR
þaðan yfir Norðurlönd, og framar öllu nýtt þjóðskipulag og ný
trúarbrögð. Danir, sem bjuggu syðst, tóku fyrstir við sterkri kon-
ungsstjórn og kristni. Haraldur Gormsson hælir sér af því á stærri
Jalangurssteininum, að hann hafi unnið Danmörku alla og gert
Dani kristna. Ólafur digri kom úr víkingunni heim til Noregs með
jafnmarkvísa stefnu í eflingu konungseinveldis og kristnihalds,
og hann lætur son sinn heita Magnús, eftir Karla-Magnúsi, sem
hafði verið erkifjandinn í upphafi víkingarinnar, en var nú orðinn
fyrirmynd allra konunga. Sighvatur ber það lof á Knút ríka, að
hann sé „kær keisara, klúss Petrúsi", þ. e. handgenginnpáfanum.
Átakanleg dæmi um áhrifagirni Norðmanna eru úr tveimur leið-
öngrum þeirra um 1100. Magnús konungur Ólafsson fór tvívegis
vestur um haf með makt og miklu veldi, og má kalla þær herferðir
síðustu víkingaferðir Norðurlandabúa, sem nokkuð kvað að.
Honum er eignuð vísa, þar sem þetta er niðurlagið:
Æskan veldr því, að írskum
ann eg betr en mér svanna.
Svo fór yfirleitt um skipti Germana og síðan Norðurlandabúa
við aðrar þjóðir, að þeir lögðu slíka ást við það, sem erlent var,
áður en þeir komust af sínu frumstæða æskuskeiði, að þeir unnu
því betur en sinni eigin menningu. Magnús gat ekki stillt sig um að
taka upp búning Skota og ganga berleggjaður. Sigurður sonur
hans fer til Jórsala, þiggur þar flís úr krossinum helga og lofar að
setja erkistól í Noregi, en heldur á heimleiðinni hégómlega
skrautsýningu á sér og liði sínu í Miklagarði, sem hefur hlotið að
vera næsta brosleg í augum stólkonungsins og hirðar hans, ekki
sízt ef þeir hafa minnzt til samanburðar árásar víkinganna 860,
þegar mjóstu munaði, að þeir tækju Miklagarð herskildi.
Norðurlandabúum farnaðist þá svipað sem Suður-Germönum
fyrrum. Þeir útrásarflokkar, sem settust yfir aðrar þjóðir, glötuðu
tungu sinni og glötuðust norrænni menningu, þótt frami þeirra og
niðja þeirra yrði mikill. Heimaþjóðirnar lutu í auðmýkt áhrifum
þeirrar menningar, sem þeir höfðu sótt á með ofbeldi og aðdáun
í senn. Þessum skiptum, víkingaöldinni, má heita lokið um 1100.