Skírnir - 01.01.1986, Page 95
SKÍRNIR
AUÐUR OG EKLA
91
manskast og norrænast af öllu germönsku og norrænu allt til 1262,
hálfri þriðju öld lengur en nokkur önnur þjóð, enda haft eftir
rómverskum kardínála 1247, að þetta stjórnarfar sé ósannlegt,
ósæmilegt.
2) íslendingar kristnast að vísu árið 1000, en þeir samþýða
kirkjuna og umlykja hana sínu eldra skipulagi, svo að miðalda-
kirkjan verður að berjast þar fyrir sigri sínum fram undir lok 13.
aldar. Hugsið þið um Pál biskup Jónsson sem samtíðarmann Inn-
ocentiusar III. og eftirmann Þorláks helga, erindreka Eysteins
erkibiskups í Noregi. Þá sjáið þið í senn muninn og viðnámið.
3) Er það ekki dálítið einkennilegt, svo vikið sé að menntun-
um, að sagnir frá hetjuöld þjóðflutninganna, frá Gotum, Borg-
undum og ef til vill Frökkum (Frönkum), skuli hafa varðveitzt í
hreinastri og upphaflegastri mynd í kvæðum, sem íslendingar
einir hafa skrásett? Berið saman Grímhildi í Nibelungenlied og
Guðrúnu í Eddukvæðunum eða jafnvel í Laxdælu, þá sjáið þið,
hvílíkur munur var orðinn á skilningi Þjóðverja og íslendinga á
forngermönsku tilfinningalífi þegar á 13. öld. - Og íslendingar
einoka ekki aðeins norræn dróttkvæði frá lokum 10. aldar. í slík-
um kvæðum sem Sonatorreki og Völuspá, svo að ekki sé fleiri
getið, hefja þeir forngermanskan skáldskap á hástig með nýstár-
legum hætti. Þessi kvæði eru a. m. k. jafngild öllu því, sem aðrar
germanskar þjóðir höfðu bezt gert, og þau eru að auki merkileg-
asti skáldskapur allrar Norðurálfu frá þeim tímum.
4) Með fornsögunum skapa íslendingar nýja bókmenntagrein á
þjóðtungu sinni, sem að frumleik lífsskoðunar og listarsniðs,
snilli stíls og lýsinga manna og atburða á sér engan líka á öllum
miðöldum og reyndar um sumt þótt lengra sé leitað.
5) Órækasta vitnið er samt tungan. Enskan varð germanskt-
rómanskt blendingsmál. Þýzkan er enn í dag í þungum viðjum
latneskrar setningagerðar, sem hefur ef til vill mótað hugsunar-
hátt Þjóðverja meir en margan grunar. Skandínavísku málin eru
í aðra röndina orðin lágþýzkar mállýzkur. En þegar íslendingur
tekur sér í hönd biblíuþýðingu Ulfila frá 4. öld eða Bjólfskviðu
frá því um 700, finnur hann meiri skyldleika við gotneskuna og
engilsaxneskuna en tungur nánustu frændþjóða sinna nú á
dögum.3