Skírnir - 01.01.1986, Side 159
SKÍRNIR
UM GfSLS ÞÁTT ILLUGASONAR
155
að frá honum sé komin mikil saga.9 Um þetta segir Nordal heldur
fátt í formála sínum, enda kemur það illa heim við skýringu hans
á tilurð Gísls þáttar, að slíku efni sé algerlega sleppt, hafi ritari
þáttarins stuðzt við G.
Sé hins vegar gert ráð fyrir því, að þátturinn kunni að vera eldri
en G og ekki afsprengi hans heldur fyrirmynd, virðist auðsóttara
að skýra þessi atriði og raunar ýmislegt fleira. Pá má hugsa sér, að
orðin „sumar bœkr“ vísi til þáttarins og ef til vill E-textans, sem
margir fræðimenn telja nú eldri þýðingu en G.10 Sömuleiðis bend-
ir samanburður á persónuskipan Gísls þáttar og kaflans í G held-
ur í átt til G sem þiggjanda. Af 13 tilgreindum persónum, sem
koma við sögu í þættinum, eru 5 með sama nafni í G,11 2 undir
öðru nafni, en 6 eða tæplega helmingur hvergi nefndar. Loks má
svo geta þess, að í Gísls þætti er aldrei talað um Jón Ögmundar-
son sem „hinn heilaga Jón“, heldur alltaf sem Jón prest. Slíkan
titil notar höfundur G hins vegar hvergi nema í þeim hluta sög-
unnar, sem lýsir samskiptum þeirra Jóns og Gísls. Þar bregður svo
við, að Jón er nefndur hinn heilagi Jón eða Jón prestur jöfnum
höndum, rétt eins og ritarinn gleymi sér stöku sinnum.
Um tengsl Gísls þáttar við kaflann í E er ekkert unnt að segja
með vissu. Að vísu er kaflinn samhljóða efni þáttarins svo langt
sem hann nær, en af því verður lítið ráðið, því að kaflinn er ör-
stuttur. Pá má vel vera, að þátturinn sé litaður af frumsögu Jóns
helga, en um það er einnig allt á huldu, enda er sagan glötuð, eins
og áður var getið.
Sama óvissa ríkir um aldur þáttarins og uppruna hans. Hin
neðri aldursmörk (terminus post quem) ráðast einungis af loka-
orðum þáttarins, sem hljóða svo: „En Jón prestr varð byskup at
Hólum ok er nú sannheilagr.“12 Vitað er, að Jón Ögmundarson
var tekinn í heilagra manna tölu árið 1200 svo að ekki getur þátt-
urinn í sinni núverandi mynd verið eldri en það. Efri mörkin
(terminus ante quem) eru hins vegar óljósari, því að þau ákvarð-
ast af aldri eldrahandritsins (Huldu), sem taliðerverafrá 14. öld.
Fræðimenn hafa síðan reynt að þrengja þetta breiða bil, en
ekki hefur þeim tekizt að finna neinar ótvíræðar röksemdir í þá
átt. Sigurður Nordal telur þáttinn ungan, af því að hann er ekki
varðveittur í Morkinskinnu,13 og Guðni Jónsson tekur í sama