Skírnir - 01.01.1986, Side 162
158
MAGNÚS FJALLDAL
SKlRNIR
anda sagnastílsins. Gísl er kynntur í upphafi á hefðbundinn hátt,
en síðan er farið fljótt yfir sögu, unz nær dregur aðalatburðum
þáttarins. Frásögnin þéttist svo, meðan sagt er frá viðburðum
þriggja daga, laugardags, sunnudags og mánudags, en verður því
næst ágripskenndari á ný, líkt og hún fjari út. Til þess að þétta
frásögnina sviðsetur höfundur t. d. mikið af samtölum og getur
oftast um stund og stað, þannig að bygging hinna einstöku atriða
fær á sig leikrænan blæ. Einnig tengir höfundur atriðin saman
með því að setja á svið dómþingið, þar sem hinir ólíku hópar
mætast.
Að lokum er fróðlegt að bera byggingu þáttarins saman við
hugmyndir Theodore M. Anderssons um gerð íslendingasagna,
en hann gerir yfirleitt ráð fyrir skiptingu í inngang, átök, ris,
hefndir, sættir og eftirmála.26 Eins og áður var sagt, er inngangur
með venjulegu móti í Gísls þætti, en því næst tekur málið að
vandast. Er til dæmis eðlilegt að líta á víg Gjafvalds sem átök, eða
er það hápunktur frásagnarinnar? Síðari tilgátunni til stuðnings
má nefna, að víg Gjafvalds er helzta hreystiverk Gíslsí þættinum,
og sömuleiðis er hefndin hámark alls þess efnis, sem á undan er
komið. Samt verður að hafna þessari tilgátu, því að vart mundi
höfundur lýsa víginu í byrjun þáttarins ef sá atburður væri honum
hjartfólgnastur. Samkvæmt hugmyndum Anderssons ætti þó risið
að vera á næsta leiti, en hér er því samt ekki að heilsa. Að lokinni
handtöku Gísls verða dálítil skil, sem bæði markast af því, að nýj-
ar persónur koma til sögunnar, og hinu, að nýtt minni (samheldni
íslendinga erlendis) tekur við, en hið fyrra (föðurhefndin)
hverfur. Ennfremur er ljóst, að Gísl er gerandi í fyrri hluta þáttar-
ins, en þolandi í hinum síðari, sem hefst á svofelldum inngangi:
„Þá var fjglmenni mikit í bœnum. Þar váru þrjú íslandsfgr; réð
fyrir einu skipi Teitr, sonr Gizurar byskups; þar var þá ok Jón
prestr Qgmundarson, er síðan var byskup at Hólum, ok var eigi
færa íslenzkra manna í bœnum en þrjú hundruð."27
Að loknum fyrrnefndum inngangi hefjast enn á ný átök, sem ná
hámarki með frelsun Gísls úr varðhaldinu og viðskiptum íslend-
inga og konungsmanna. í kjölfar þessara átaka siglir svo harla
óvenjulegt ris, þ. e. a. s. atburðir þeir, sem gerast á þinginu, og þó
einkum ræða Jóns. Ekki er um neinar hefndir að ræða, því að í