Skírnir - 01.01.1986, Page 178
174
HALLVARD MAGERÖY
SKlRNIR
Fornsögur
Það heiti, sem ég kaus erindi mínu, var „Aristóteles og Snorri“ -
ekki „Aristóteles og Snorra-Edda“. Þetta stafar af því að Snorri
ritaði, eins og allir vita, miklu fleira en Snorra-Eddu. Snorri náði
hátindi og drýgði mesta dáð sem sagnahöfundur.
Þó að Snorri léti aldrei eftir sig neinar ritaðar reglur um list sína
í lausu máli, álít ég rétt að taka einnig þau ritstörf hans með í þess-
um samanburði. En lausamálslist Snorra er aðeins ein grein af
hinni sígildu list íslenskra fornsagna. í raun og veru er ógerningur
að setja skýr mörk milli listar Snorra og annarra fornsagnahöf-
unda, m.a. vegna þess að allir frumtextar fornsagnanna eru
glataðir. Ég geri þess vegna hér engan mun á list Snorra og list
annarra sígildra sagnahöfunda á 12. og 13. öld, en tel þá alla full-
trúa hinnar sömu sagnalistar.
Þó að Snorra Sturlusyni og samtíðarmönnum hans væri
fullljóst, að kveðskapur er list sem lýtur ströngu lögmáli, höfum
við hvergi dæmi þess, að þeir reyndu að finna sambærileg lögmál
eða reglur um lausamálslist. Það er nánast eins og margar reglur
þessarar bókmenntagreinar hafi orðið til í listrænni vitund höf-
undanna, en ekki með markvissri skilgreiningu, og að þannig hafi
hefðin haldist; menn hafi líkt eftir því sem fyrir var án þess að vita
gjörla hvers vegna.19
Þetta minnir á hinar föstu reglur um hrynjandi í fornkvæðum,
sem ég nefndi áður og Snorri þekkti ekki, en skáldin höfðu tilfinn-
ingu fyrir.
En þrátt fyrir hið mikla listræna gildi verulegs hluta fornsagn-
anna er rétt að leggja áherslu á að þessar bókmenntir brjóta í
bága við hinar klassísku kröfur forngrískra og rómverskra bók-
mennta í mikilvægum atriðum. Til að mynda krafðist Aristóteles
þess, að bókmenntalegt listaverk væri samfelld heild. Hann segir:
„ . . . hinum einstöku hlutum þarf að skipa þannig niður, að sé
einn hlutinn færður til eða honum kippt burt, þá brenglist og rask-
ist heildin. Ef nærvera eða fjarvera einhvers hluta gerir hvorki til
né frá, er hann ekki þáttur í heildinni."20
Miðaldabókmenntir eru aftur á móti jafnan lausari í reipum en
þau ritverk sem Aristóteles mat góð og gild, og krefjast ekki jafn
rökrétts innra samhengis. Oft er í þeim margþætt atburðarás, en