Skírnir - 01.01.1986, Page 181
SKÍRNIR
ARISTÓTELES OG SNORRI
177
helmingi þrettándu aldar, það er að segja frá blómaskeiði ís-
lenskrar sagnaritunar.
Krafa um innri orsakatengsl
Hjá Aristótelesi leiddi krafan um innri einingu í leikriti einnig til
kröfunnar um innri orsakatengsl. Hann segir: „Bæði í skapgerð-
arlýsingum og í atburðarás ber að stefna að því sem er óhjá-
kvæmilegt eða líklegt, þannig að tiltekinn maður annaðhvort
hljóti eða sé líklegur til að tala og breyta á þennan ákveðna hátt
eða eitthvað hljóti að leiða eða sé líklegt til að leiða af öðru.“25
Þessa kröfu aðhyllist Hóraz líka.26 En sömu kröfu er einnig full-
nægt í hinum þroskuðustu konunga- og íslendingasögum. í þess-
um sögum er altítt að lesandi fái í upphafi sögunnar grun eða
bendingu um örlagaþrungna atburði, sem eru í vændum, og endir
harmleiksins nálgast eftir það, skref af skrefi án þess að rönd
verði við reist. Dæmi um þetta er fall Ólafs konungs hins helga á
Stiklarstöðum í sögu hans, eða Njálsbrenna í Njálu.
Orsakatengslin í Njálu eru sennilega samband atburða sem eru
að mestu leyti tilbúningur höfundarins. En krafan um orsaka-
tengsl hlaut að fá víðtækari merkingu, þegar hún varð að kröfu
um nauðsynlegt samband milli þekktra staðreynda í sagnfræði-
legri frásögn. Og sá sagnaritari, sem hvað frægastur er fyrir fast-
heldni og fylgni við þessa kröfu, er Snorri Sturluson. Andstætt
annála- og kronikuhöfundum miðalda, sem jafnan hlóðu atburði
á atburð ofan, án skýrs áforms eða samhengis, og höfðu oftast
einungis tímatalið til leiðbeiningar, býr Snorri til þaulhugsaða og
rökræna frásögn af atburðum og orsakatengslum. Þegar til dæmis
konungsveldi Ólafs helga hrynur samkvæmt frásögn Snorra, þá
gerist það ekki í einu vetfangi, eins og eldingu ljósti niður eða
jarðskjálfti dynji yfir. Ólíkar atburðarásir ber að hægt og sígandi
úr ýmsum áttum, eins og lækir og ár í afskekktum dölum, sem
sameinast og verða að flaumi sem engu eirir.
Ein atburðarásanna hefst langt í norðri, þar sem Ásbjörn Sels-
bani ræðst í kornkaupaferð í banni konungs suður til frænda síns
Erlings á Jaðri, - önnur þegar Ólafur konungur sviptir Hárek úr
Þjóttu sýslumannsembætti, - hin þriðja þegar Ólafur konungur
lofar hirðmanni sínum, Kálfi Árnasyni, að eiga ekkju Þrænda-
12 — Skírnir