Skírnir - 01.01.1986, Page 182
178
HALLVARD MAGERÖY
SKÍRNIR
höfðingjans Ölvis á Eggju, sem Ólafur konungur hafði látið
drepa. En hin fjórða byrjar langt í suðri og vestri, þar sem Knútur
Danakonungur tryggir yfirráð sín á Englandi og stofnar ósigrandi
stórveldi. Allt þetta rennur svo saman í harmleikinn á Stiklar-
stöðum.
Krafa um eftirlíkingu veruleikans
Meðal þeirra eiginleika hjá persónum harmleiks sem Aristóteles
telur sérstaklega mikilvæga, er það sem hann nefnir to hómoion.
Það þýðir bókstaflega „líkingin“.27 Margir hafa túlkað þetta orð
sem eins konar kröfu um eftirlíkingu veruleikans.28 En þessari
túlkun hafna nú aðrir fræðimenn. Þó að Aristóteles og Hóraz hafi
ekki lagt þá áherslu á náttúrueftirlíkingu sem menn hugðu áður,
þykir mér samt að skýr ummæli beggja bendi í átt til eins konar
raunsæiskröfu. Aristóteles segir: „Skáldskapur felst í eftirlík-
ingu“,29 og hann krefst þess að sleppt sé öllu því sem er gagnstætt
heilbrigðri skynsemi.30 Karlmaður á að vera karlmannlegur á
leiksviðinu, en kona kvenleg.31 Hóraz óskar líka, að leikrit sé svo
nærri veruleikanum að áhorfendum mislíki ekki og þyki óeðli-
legt. „Mikill munur er á þvi,“ segir Hóraz, „hvort guð talar eða
hálfguð, svo og, hvort aldrað gamalmenni talar eða fjörugt ung-
menni, sem enn er í æskublóma; hvort voldug hefðarkona, eða
aðgætin fóstra; hvort víðförull kaupmaður ræðir eða yrkjandi
grænnar ekru; hvort kolkneskur maður talar eða assýrskur.“32
„Hver sá guð eða hálfguð sem látinn er fram koma“, segir Hóraz,
„flytji sig eigi með ruddalegu orðbragði í auvirðilegan kofa.“33
Þessari kröfu, um að efnið eigi að vera innan takmarka hins
eðlilega, er líka fullnægt í þroskuðustu fornsögum íslendinga. En
eins og fræðimenn hafa sennilega misskilið og ýkt kröfuna um
veruleikalíkingu hjá Aristótelesi, þannig hafa menn einnig mis-
skilið og misnotað einkunnarorðið „raunsæi“ í umræðu um ís-
lendingasögur. Ein aðalröksemd þeirra fræðimanna, sem héldu
því fram, að íslendingasögur og meginhluti konungasagna væru
áreiðanlegar sagnfræðiheimildir, var einmitt hinn áberandi veru-
leikablær sem sérkennir þær. Orðið „raunsæi“ var einnig eins
konar tískuorð og einkunnarorð þeirra fræðimanna sem ruddu