Skírnir - 01.01.1986, Page 191
SKÍRNIR
ARISTÓTELES OG SNORRI
187
Reglur og kröfur ættarsamfélagsins eru einnig ríkjandi í eddu-
kvæðum og íslenskum fornsögum. Tryggð við foreldra, systkin,
maka og börn er hið æðsta boðorð, svik aftur á móti hin versta
synd.
Að vísu getur fall hetjunnar einnig stafað af öðrum orsökum en
ættrækni. Miskunnarlaus metnaður knýr hetjur eins og Gunnar
Gjúkason í Atlakviðu eða Gunnar á Hlíðarenda í Njálu til að
leita uppi hættu og tortímingu. En mjög oft er tortímingin einmitt
afleiðing ættrækninnar. Svo er í Hamðismálum, þar sem þeir
Hamðir og Sörli fórna lífi sínu til þess að hefna dauða systur
sinnar, eða í Njálu, þar sem þau Njáll og Bergþóra kjósa bæði
dauðann, af því að þau vildu ekki skilja hvort við annað og ekki
við syni sína.
í „Oidipusi konungi“ eftir Sófókles er hins vegar barist við
vandamál, sem höfundur getur alls ekki leyst úr. Óafvitandi drap
Oidipus föður sinn, Laios konung. En hin ósjálfráða synd hlýtur
sömu refsingu og hin, sem drýgð er af ásettu ráði: skömm og tor-
tímingu.
Vandamálið í „Oidipusi konungi“ minnir á það, sem höfundur
Jobsbókar og aðrir höfundar Gamla testamentisins veltu fyrir sér:
Af hverju lætur guð hina réttlátu þjást? - Forngrikkir, og einnig
forfeður okkar, gripu hér til sérstakrar skýringar, forlaganna.
Oidipus konungur stjórnaði af réttlæti og reyndi að gera vel við
alla. En forlögin (eða goðin) valda því, að hann syndgar óafvit-
andi og lendir í hinni mestu ógæfu. Njáll hinn vitri notar alla
kunnáttu sína og vitsmuni til að bægja frá slysum og efla friðinn.
En allar ráðagerðir hans mistakast, hver af annarri. Að lokum
snýst allt á verri veg.
Einar Ólafur Sveinsson prófessor orðaði þetta svona: „Bæði
Oidipus konungur og Njála fjalla um magnleysi mannsviljans
gagnvart örlögunum," og hann segir ennfremur: „Þessi hræðilega
ógæfa, sem kom fyrir Oidipus, kom ekki vegna neinna smámuna,
ekki vegna þess að hann væri svona eða hinsegin í skapi, ekki
vegna þess að hann hefði unnið til þess, heldur vegna þess að
hann var maður. Eins og ég og þú.“51
Gagnvart þessari takmarkalausu nauðung virðist Oidipus-
skáldið ekki þekkja annað úrræði en þolgæði og von um mildan