Skírnir - 01.01.1986, Page 220
216
EINAR G. PÉTURSSON
SKÍRNIR
á næstu bæjum voru hálfkirkjur fram á 18. öld. Þetta dæmi sýnir
að erfitt er að fullyrða, hvort kirkja hefur upphaflega verið á til-
tekinni landnámsjörð. Annars þyrfti þetta eðlilega náinnar um-
fjöllunar og seint mun takast að finna alla kirkjugarða.
Um fjölda kirkna um 1100 er þess vegna erfitt að segja með
vissu. Ekki hefur verið til neitt kirknatal í Skálholti um 1200 og
menn hafa ekki vitað um fjölda kirkna í biskupsdæminu, úr því að
Páll biskup taldi þörf á að láta telja kirkjur og skrá nöfn kirkju-
staða. Það gæti einnig bent til þess, að fjöldi prestskyldra kirkna
hefði ekki verið fastákveðinn heldur eitthvað breytilegur og þá
samkvæmt ákvörðunum biskupa, enda hafði hann eins og áður
sagði heimild til breytinga. Sveinn Víkingur segir prestskyldar
kirkjur hafa verið 350 um 1200, en að auki um 50 alkirkjur til
söngs með lítilli eða engri sókn.8 Kirkjur hafi alls verið 400.
Nokkuð önnur útkoma er hjá Magnúsi Stefánssyni, en hann
segir, að alkirkjur hafi verið 320-330 og alls hafi þeim verið þjón-
að af 400-450prestum.9 Þessar tölur þeirra eru býsna nálægar töl-
unni 430, en svo margir eru landnámsmenn taldir vera. Ekki
verður hér reynt að svara, hvort þetta er tilviljun eða ekki. Eins
og fyrr gat hafði biskup vald til að neita að vígja kirkjur og hugs-
anlegt er að eitthvað hafi verið um að alkirkjur hafi verið færðar
á 12. öld, en ekki trúlegt að mikið hafi verið um það eða að það
hafi haft veruleg áhrif á hvar kirkjur urðu síðar. Einnig er rétt að
minna á, að Landnáma er ekki varðveitt í upphaflegri mynd, svo
að við vitum ekki um fjölda landnámsmanna í frumgerð hennar.
Kirkjan á þjóðveldisöld hefur oft verið kölluð goðakirkja,
kirkja hinna vígðu goða, en goðar voru um 40 og alls sátu í lög-
réttu 144 goðar og menn sem þeir höfðu til umráða. Þessi tala
kirkna og presta sýnir þó, að mun fleiri en goðarnir og umráða-
menn þeirra hafa orðið að vera viðriðnir kirkjurnar. Orðið goða-
kirkja er því að sumu leyti villandi, þótt goðar hafi víslega oft ráð-
ið mestu.
Haustið 1966 setti Þórhallur Vilmundarson fram þá kenningu,
að mörg örnefni, sem til þess tíma höfðu almennt verið talin dreg-
in af nöfnum landnámsmanna, væru dregin af ýmsum fyrirbærum
í náttúrunni. Samkvæmt kenningunni féllu margir landnáms-
menn, en urðu í staðinn að einhverjum náttúrufyrirbærum.10