Skírnir - 01.01.1986, Page 229
SKÍRNIR RÁÐNINGARSKILMÁLAR f LOK 19. ALDAR
225
Vinnuveitendur gátu sent mann í vinnu til annarra. Var það
helzt þannig að bændur sendu vinnumenn í verið, og stóð vertíð
mislengi eftir landshlutum. Það hafði verið regla að bóndi fengi
hlut sjómannsins. Þegar leið að aldamótum varð algengt sunnan-
lands og vestan að vinnumenn, sem fóru til róðra á vetrarvertíð,
fengju í árskaup hálfan hlut.4 Frá sjávarsíðunni fóru margir á
sumrin í kaupavinnu upp til sveita, ýmist á vegum sjávarbænda
eða á eigin vegum.
Fæði og stundum klæði var innifalið í laununum ásamt hús-
næði. Víða fengu vinnumenn að hafa eigið sauðfé á fóðrum.
Gekk fóðrið upp í kaupið. Þannig gátu menn komizt í nokkur cfni
sem nota mátti til bústofnunar.
Ákvæðin um vistarskyldu gerðu engan mun á hvort menn áttu
heima í sveit eða við sj ó. Kaupmaður og útvegsmaður gat því ráð-
ið eins margt fólk til sín og honum þóknaðist, en með sama skil-
yrði og bændur, að ráða til ársins, og eins var um embættismenn,
t. a. m. í Reykjavík.
Vistarskyldan varðaði sýnilega aðeins þá sem ekki gátu sannað
að þeir væru færir um að sjá sér farborða. Allmikið var um að vist-
arskyldan væri vanrækt, og var hilmað yfir með mönnum. Dæmi
þess er m. a. að eftir 1880 fór að tíðkast að gagnfræðingar réðust
til kennslu að vetrinum, en sáu um sig sjálfir á sumrin, og bú-
fræðingar réðust í jarðabótavinnu á sumrin og sáu um sig sjálfir
að vetrinum, utan við vistarband, en þó án leyfisbréfs, og það jafn-
vel þótt meðal vinnuveitenda þeirra væru stjórnvöld (hrepps-
nefndir og sýslunefndir).5
Á þessum árum jókst útgerð þilskipa. Þar bauðst sjómönnum
þokkaleg afkoma. Á þilskipum var allmikið af mönnum í þurra-
búð sem voru því undanþegnir vistarskyldu. Fiskveiðar á þilskip-
um voru mest stundaðar á sumrin, á þeim tíma sem mest þörf var
fyrir fólk við landbúskap. Útvegsmenn þilskipa höfðu síður þörf
fyrir fólk að vetri til, en þá sem bjuggu við vistarband varð að
ráða til ársins, eins og áður sagði. Öðru máli gegndi þegar vinnu-
menn í sveit fóru til róðra á vetrarvertíð sunnanlands og vestan,
að þá var þeirra sízt þörf heima fyrir, þar sem vertíð árabáta lauk
fyrir vor- og sumarannir til sveita. (Um norðanvert landið,
15 — Skírnir