Skírnir - 01.01.1986, Side 240
236
HANNES H. GISSURARSON
SKÍRNIR
eftir atvikum kyrrir, þar sem þeir væru). Hann hélt því fram, að
í sjálfstýrðu hagkerfi fengju þeir slíkar upplýsingar með því
verði, sem myndaðist á þjónustu þeirra í frjálsum viðskiptum.
Þeir fengju þær með öðrum orðum með neikvæðu og jákvæðu
afturkasti (feedback). Ef ríkið raskaði hins vegar tekjuskipting-
unni með valdboði, þá færu slíkar upplýsingar forgörðum með
þeim afleiðingum, að ákvarðanir manna yrðu ekki eins skynsam-
legar og ella.
Þorsteinn hefði reyndar átt að vita af þessum athyglisverðu
rökum, þar sem Hayek kom aftur orðum að þeim í áðurnefndum
fyrirlestri á íslandi í apríl 1980. En ég skal til frekari skýringar
reyna að taka þau saman í einni málsgrein: Sökum eðlislægrar
óvissu tilverunnar og óhjákvæmilegs þekkingarskorts mannanna
sjáum við það aldrei fullkomlega fyrir, hvar hæfileikar manna
koma að bestum notum, svo að annaðhvort verðum við að leyfa
þeim að uppgötva það sjálfum í frjálsum viðskiptum (en það
merkir, að þeir fá greitt samkvæmt verðmæti þeirrar þjónustu,
sem þeir veita öðrum) eða fela embættismönnum í stofnunum
ríkisins að leggja mat á þessa hæfileika, en þar sem þessir menn
eru eðli málsins samkvæmt jafnþekkingarsnauðir og aðrir, er það
mat ekki líklegt til þess að vera skynsamlegt eða vinsælt og því
varla framkvæmanlegt nema við einræði eða alræði. „Ef tekjur
manns svara ekki til verðmætis þeirrar þjónustu, sem hann veitir
öðrum, þá hefur hann ekkert við að styðjast um, hvort fyrirhöfn
hans svarar kostnaði,“ ritar Hayek í Frelsisskránni. „Þá verður að
segja honum, hvað hann á að gera, og mat annarra á því, hvar
hæfileikar hans koma að bestum notum, hlýtur að ráða skyldum
hans og tekjum.“13
Það er í vissum skilningi reynsluatriði, eins og Þorsteinn Gylfa-
son orðar það, að menn búa við þekkingarskort, svo að þeir geta
hvorki metið verðleika annarra til fullnustu né vitað fyrir, hvar
hæfileikar þeirra sjálfra nýtast best. Þetta er reynsluatriði af þeirri
ástæðu, að sá heimur er hugsanlegur, þar sem menn búa ekki við
þekkingarskort (hvort sem slíkur heimur getur verið mannheim-
ur eða ekki). En eiga fræðimenn eins og Hayek að leiða þetta
reynsluatriði í ljós með því að endursegja óteljandi sögur um,
hversu illframkvæmanlegt verðleikamat hafi reynst í einstökum