Skírnir - 01.01.1986, Page 245
SKÍRNIR UM RÉTTLÆTISHUGTÖK HAYEKS OG NOZICKS
241
minnki, að það geti valið úr mörgum slíkum kostum.20 Þorsteinn
Gylfason snýr mjög út úr þessum orðum Hayeks. Hann segir á
bls. 171:
Þegar það eru framkvæmdastjórar stórfyrirtækja sem hafa verðleikamatið á
hendi þá hættir það að vera illframkvæmanlegt, hvað þá óframkvæmanlegt.
Það verður að brýnni nauðsyn. Og ekki bara það heldur stóreykur það á frelsi
mannanna. Með þessu móti má telja það næstum því alfrjálst þjóðfélag þar
sem þorri manna á allt undir geðþótta einhvers Jóhanns Bogesens eða Péturs
þríhross, ef menn geta bara ráðið því sjálfir hvort þeir setjast að á Óseyri eða
í Sviðinsvík. Með svona rökum má verja hvaða alræðisríki sem vera skal, svo
lengi sem mönnum er nokkurn veginn frjálst að velja á milli ólíkra búsetu-
kosta. Ráðstj órnarríkin auka til dæmis mjög á frelsi mannkynsins, því ef þau
væru ekki til og eins og þau eru, þá ættu menn engan kost á að búa í svoleiðis
þjóðfélagi.
Hayek heldur því auðvitað alls ekki fram, að frelsi sé ekkert
annað en val um ólíka búsetukosti. Hvað er hann að segja? Hann
er öðrum þræði að benda á það, að menn geta í frjálsu landi valið
um það, hvort þeir starfa úti á markaðnum með allri þeirri
áhættu, sem því fylgir, eða inni í stofnunum, þar sem þeir verða
að vísu að afsala sér einhverju frelsi, en fá fyrir tiltekið öryggi.
Menn geta í frjálsu landi tryggt sig gegn áhættu, þótt tryggingin
kosti auðvitað sitt. Sumir kjósa áhættusöm störf, aðrir ekki. En
Hayek er einnig að minna á muninn á því að starfa úti á markaðn-
um og inni í stórfyrirtækjum eða stofnunum. Fólk kemst auðveld-
lega að því á frjálsum markaði, hvert er verðmæti þeirrar þjón-
ustu, sem það veitir: það ræðst af framboði og eftirspurn og er
ekkert annað en munurinn á tekjum og kostnaði. Hitt er erfitt og
jafnvel ókleift að finna, hvað hver starfsmaður inni í tiltekinni
stofnun leggur fram til verðmætis þeirrar þjónustu, sem stofnunin
veitir, og þess vegna er það gjarnan lagt í dóm yfirmanna hennar.
Ef einhver einstaklingur sættir sig ekki við þann dóm, þá getur
hann tekið hatt sinn og staf og farið annað.
Hayek er umfram allt að brýna það fyrir okkur, hversu miklu
máli það skiptir að hafa útgönguleið. Þurfum við annað en líta
Berlínarmúrinn augum til þess að láta sannfærast um það? Ef
fólki mislíkar, þá getur það á frjálsum markaði alltaf leitað
16 — Skírnir