Skírnir - 01.01.1986, Page 246
242
HANNES H. GISSURARSON
SKÍRNIR
annað. Það á auðvitað ekki heimtingu á því, að því sé boðinn ná-
kvæmlega sá kostur, sem því líkar best: enginn einn maður getur
búist við því, að aðrir menn lagi sig í einu og öllu að honum. í
samstarfi þurfa menn alltaf að sætta sig við einhverjar reglur. En
flestir hljóta að vera sammála Hayek um það, að fólk sé að jafn-
aði því frjálsara sem það geti valið um fleiri ólíka kosti. Dæmi
Þorsteins af Ráðstjórnarríkjunum á því alls ekki við og er reyndar
hinn argasti útúrsnúningur: fólk hefur aldrei fengið að velja um
þau og önnur frjálsari lönd. Þetta er lokað land. Þaðan er ekki út-
gönguleið. Dæmi Þorsteins af Óseyri og Sviðinsvík er raunhæf-
ara: íslenskt alþýðufólk átti ekki margra kosta völ um aldamótin
síðustu, þótt áreiðanlegri heimildir kunni að vera til um kjör þess
en skáldsögur Halldórs Laxness. Gætum þó að því, að þetta fólk
átti fárra góðra kosta völ, af því að það bjó í fátæku landi, en ekki
vegna þess að ríkið legði hömlur á framleiðslu þess og viðskipti.
Það er að sjálfsögðu hugsanlegt eins og Orwell sá fyrir sér árið
1984, að fólk geti aðeins valið um mjög ófýsilega kosti. En ef svo
er, þá er það ekki galli á frelsiskenningu Hayeks, heldur á þeim
heimi (eða því þróunarstigi), sem hefur ekki upp á meira að
bjóða.
6. Ruglar Nozick saman sérréttindum og samréttindum?
Gagnrýni Þorsteins Gylfasonar á réttlætiskenningu Nozicks er
miklu skaplegri og skynsamlegri en árás hans á kenningu Hayeks.
Snúum okkur að henni. Nozick segir hugvitssamlega sögu af
íþróttakappanum Wilt Chamberlain til þess að sýna, hvernig rétt-
lætiskenningar ýmissa ríkisafskiptasinna hljóti að rekast á frelsið.
Þorsteinn Gylfason staðfærir hana ágætlega, svo að hún verður að
sögu um söngvarann Garðar Hólm.21 Við hugsum okkur, að í ein-
hverju landi hafi okkur tekist að koma á réttlátri tekjuskiptingu,
og gildir í þessu viðfangi einu, hver sú skipting er. En Garðar
Hólm kemur á vettvang og heldur hverja söngskemmtunina af
annarri við miklar vinsældir. Áheyrendur greiða óðfúsir aðgangs-
eyri þann, sem Garðar setur upp, og græðist honum stórfé. Við
þetta breytist hin upphaflega tekjuskipting: Garðar verður vell-
ríkur, en þeir, sem sóttu söngskemmtanir hans, eru allir nokkrum
krónum fátækari. En getur verið, að hin nýja tekjuskipting sé