Skírnir - 01.01.1986, Side 250
246
HANNES H. GISSURARSON
SKlRNIR
pálmasunnudag. „Fæstir munu þeir vera, sem náttúran hefur
hjálpað þar til að öllu leyti eður þeirra eitt saman erfiði, með
hverju guð hefur skipað að næra sig af jörðinni. Ég vænti, að svo
hafi flestir auðgast, að þeir eða þeirra forfeður hafi tekið nokkuð
ranglega frá öðrum. En segið mér: Er það réttvíst, að menn stæra
sig upp yfir einhverjum af því, að hans forfeður hafa tekið nokk-
uð frá hins forfeðrum?“31
Herðum á þessari hugsun. Frjálshyggjumenn eru hlynntir
frjálsum samningum einstaklinganna um sem flest mál, en and-
vígir valdboði að ofan. Ef eitthvað er umsamið á milli tveggja
frjálsra og fullvita einstaklinga, án þess að beitt sé blekkingum
eða ofbeldi, en aðrir verða ekki fyrir kostnaði af samningsins
völdum, þá telja frjálshyggjumenn eins og Hayek og Nozick, að
okkur beri að virða samninginn. En gallinn er sá, að séreignar-
skipulagið sjálft er alls ekki umsamið. Hvenær veitti ég samþykki
mitt til þess, að þú girtir af landsvæði? Hvenær sömdum við um
það? Varst þú ekki að taka þér rétt, sem þú hafðir ekki? Varst þú
í rauninni ekki að skerða frelsi mitt?32 Ég geri ráð fyrir, að ein-
hverjar slíkar spurningar blundi í brjósti Þorsteins.
Nozick þarf því á að halda kenningu um réttláta upphaflega
eignaskiptingu: Hann verður að geta svarað þeirri spurningu,
hvers vegna þér er heimilt að skerða frelsi mitt með því að helga
þér eitthvert tiltekið landsvæði. Og hann svarar henni með því að
vísa í fyrirvara Lockes (sem Þorsteinn greinir af einhverjum
ástæðum ekki nákvæmlega). Samkvæmt fyrirvara Lockes máttu
menn því aðeins slá eign sinni á einhver gæði, að jafnmikið og
jafngott væri eftir af slíkum gæðum fyrir aðra (þar sem Guð hefði
gefið mönnunum gæði jarðarinnar til þess að njóta í sameiningu).
Nozick umbreytir að vísu fyrirvaranum af ástæðum, sem koma
þessu máli ekki við.33 Samkvæmt þeim fyrirvara, sem Nozick
setur, mega menn því aðeins slá eign sinni á einhver gæði, að hag-
ur annarra manna versni ekki fyrir vikið. Þér er með öðrum orð-
um heimilt að helga þér tiltekið landsvæði, svo framarlega sem
það kostar mig (og aðra) ekkert. í fyrirvara Nozicks felst, hygg
ég, frekari útfærsla gamalkunns lögmáls frjálshyggjumanna um
fullt og jafnt frelsi allra manna: þér er heimilt að gera það, sem þú
kærir þig um, ef þú gerir hvorki mér né öðrum mein með því.34