Skírnir - 01.01.1986, Side 255
SKÍRNIR UM RÉTTLÆTISHUGTÖK HAYEKS OG NOZICKS 251
9. Hvemig eru ónumin gœði numin, án þess að aðrir bíði tjón?
Tökum dæmi úr íslandssögunni. Ingólfur Arnarson og þeir. sem
honum fylgja, slá eign sinni á einstakar jarðir, þannig að lítið er
til skiptanna, þegar aðra ber að landi, eins og kvartað er um í
Landnámu,44 En hafa þeir Ingólfur með því gert eitthvað á hlut
hinna, sem síðar koma? Ekki nauðsynlega. Til hvers slá menn
eign sinni á jarðir? Til þess að yrkja þær. En til hvers yrkja menn
þær? Til þess að afla sér tekna. Tilgangur manna með jarðnámi er
ekki að nema einstakar jarðir, heldur að afla sér tekna. Ef þeir
geta aflað sér jafnmikilla tekna með öðrum hætti en þeim að yrkja
jarðir, þá hefur ekkert verið gert á hlut þeirra með því að taka af
þeim þann kost. Það gildir með öðrum orðum um ónumin gæði,
sem menn slá eign sinni á, að ein geta komið í staðinn fyrir önnur.
Frelsi manna til að fara með slík gæði er frelsi til að fara með ótil-
tekin gæði, og það frelsi er ekki skert með því, að menn slái eign
sinni á tiltekin gæði, að því tilskildu, að aðrir þurfi ekki fyrir vikið
að hverfa að verri gæðum (þótt það hafi þeir hugsanlega þurft að
gera á íslandi á dögum Ingólfs Arnarsonar, vegna þess að þá voru
framleiðsluhættir fábrotnir: nú gætu þeir snúið sér að fiskveiðum,
verslun, þjónustustarfsemi og jafnvel háskólakennslu).
Við skulum til frekari skýringar bera ónumin gæði saman við
numin. Frjálshyggjumenn af ætt Nozicks telja rangt að taka eignir
af mönnum án samþykkis þeirra, þótt bætur séu boðnar. Eigend-
urnir hafa að þeirra sögn tilkall til viðkomandi eigna, og því geti
aðrir ekki ráðstafað þeim að vild. Stundum eru eigendurnir jafn-
vel bundnir eignunum tilfinningaböndum, til dæmis jörðum, sem
hafa verið í ættareign í marga mannsaldra, listaverkum eða göml-
um gripum. Frelsi þeirra til að fara með gæði er frelsi til að fara
með tiltekin gæði, sem þeim eru mikils virði (hvort sem þau eru
öðrum einhvers virði eða ekki), og frelsi þeirra er skert með því
að taka af þeim þessi tilteknu gæði. Öðru máli gegnir um ónumin
gæði. Frelsi manna til að fara með þau er frelsi til að fara með
ótiltekin gæði, en það merkir ekkert annað en frelsi til að fara
með peningavirði hinna ótilteknu gæða. Frelsi þeirra hefur því
ekki verið skert við það, að aðrir slá eign sinni á gæði, ef peninga-
virði þeirra gæða, sem þeir geta sjálfir farið með, hefur ekki
minnkað fyrir vikið.