Skírnir - 01.01.1986, Síða 266
262
HANNES H. GISSURARSON
SKÍRNIR
sé goldið eftir verðleikum, því hvað eru verðleikar ef ekki það að
vinna náunga sínum til góðs?“ segir Þorsteinn. En hæfileikar
manna til þess að fullnægja þörfum náunga sinna eru ekki nauð-
synlega verðleikar (þótt þeir geti undir vissum kringumstæðum
verið það): þeir eru tilteknir hæfileikar og að mínum dómi alls
ekki þeir, sem við eigum alltaf að leggjamest upp úr. Flestmetum
við menn ekki eftir sölugildi hæfileika þeirra, heldur siðferðisgildi
verka þeirra.
í öðru lagi ruglast Þorsteinn á þeim réttlætisreglum, sem gilda
um skiptingu gæða inni í tiltekinni stofnun, og hinum, sem gilda
um skipti manna á gæðum úti á markaðnum. Hann reynir að nota
hugtök, sem eiga við um skiptingu inni í stofnun, á skipti manna
úti á markaðnum. Reynum að skýra þennan mun. Inni í stofnun
geta menn gjarnan gengið að einhverri forskrift um réttláta skipt-
ingu vísri. Þar vitum við, hvað í því felst, að menn eigi eitthvað
skilið. Réttlæti inni í stofnun er forskriftar-réttlæti. Foreldrar,
sem skipta eiga köku með börnum sínum, svo að alþekkt dæmi
Sir Isaiah Berlins sé notað,64 geta ekki annað en skipt henni í jafn-
stóra bita, því að öll þeirra börn eru jafnmikil börn þeirra, ef svo
má til orða taka. Kennari, sem á að úthluta nemendum sínum ein-
kunnum, reynir, ef hann er réttsýnn, að gera það samkvæmt
frammistöðu þeirra, annaðhvort á prófum eða í tímum, en ekki
útliti þeirra eða kynþokka. Réttlátur dómari sýknar menn eða
sakfellir eftir verkum þeirra, en ekki stjórnmálaskoðunum, og
hann refsar þeim, sem sakfelldir eru, eftir málsatvikum. Sam-
viskusamur verkstjóri á vinnustað sér um, að fólki, sem vinnur
ákvæðisvinnu, sé greitt samkvæmt afköstum, en ekki kynferði.
Sanngjarn ráðherra veitir embætti eftir hæfileikum umsækjenda,
en ekki ætterni.
Inni í tilteknum stofnunum má gjarnan nota eitthvert verð-
leikahugtak, þótt ekki sé þar nauðsynlega um siðferðilegt hugtak
að ræða. Þar eru til reglur um, hvernig því skuli beita, því að þar
skilgreinast verðleikar einstakra manna af eðli eða hlutverki við-
komandi stofnunar. En slíkt verðleikahugtak er hins vegar varla
nothæft úti á markaðnum. Þar geta menn ekki gengið að neinni
einni forskrift vísri, því að þar skiptast óteljandi einstaklingar á
vörum og þjónustu án þess að vita, til hvers viðskipti þeirra leiða.