Skírnir - 01.01.1986, Side 274
270
HANNES H. GISSURARSON
SKÍRNIR
að til í ritgerð sinni. Hér virðist vera komið hið gamla aristótel-
íska hugtak um möguleika þann, sem búi í lifandi verum og orðið
geti að veruleika við rétta eða réttláta skipan mála. Þetta er til-
gengishyggja eða frumspekileg kenning um einhvern tilgang, sem
lifandi verur verði að ná. Þorsteinn hafði hins vegar áður í ritgerð-
inni, sýnist mér, notað venjulegt sannleikshugtak vestrænna
manna, þar sem það er einhver samsvörun við reynsluheiminn,
sem sker úr um sannleik orða okkar og verka (til dæmis samsvör-
un frammistöðu nemenda á prófum við einkunnir kennara).
Þorsteinn sýnir ekki fram á neitt nauðsynlegt samband á milli
verðleika- og sannmæliskenninga sinna annars vegar og þessarar
gömlu aristótelísku hugmyndar hins vegar. Og það getur ekki
heldur verið neitt réttlætismál, hygg ég, að menn fái allir að taka
út fullan þroska. Málið er miklu flóknara en Þorsteinn vill vera
láta. Segjum sem svo, að til séu síbrotamenn, brennuvargar og
morðingjar, haldnir óviðráðanlegri hvöt til illra verka: Eiga þeir
að fá að njóta sín í því hlutverki? Og eiga menn að vaxa í allar
áttir, óháð því hvort þeir þrengja með því að öðrum? Hvað gerist,
þegar einn maður getur ekki tekið út þroska sinn nema annar fái
ekki að taka út sinn? Fleiri eru sem kunnugt er kallaðir en útvaldir
í lífinu. Segjum sem svo, að tveir menn hafi köllun til sama lekt-
orsstarfsins í Háskóla íslands. Hvað verður um þann, sem hafnað
er? Breytum dæminu. Segjum sem svo, að íslenskir skattgreið-
endur komist á þá skoðun, að þeir eigi heldur að nota fé sitt til
þess að auðvelda eigin þroska en þroska hins útvalda lektors, svo
að starf hans sé lagt niður. Hvað gerist þá? Munum það, að ólík
markmið ólíkra einstaklinga hljóta oftsinnis að rekast á með
venjulegum vestrænum menningarþjóðum og að réttindahugtak-
ið hefur gefist okkur best til lausnar slíkum árekstrum.
Hvað sem öllu þessu líður, gefur Þorsteinn það stundum í skyn,
að hann sé sammála frjálshyggjumönnum eins og Hayek,
Friedman og Nozick um, að það ríki sé eftirsóknarvert, sem búi
borgurunum sem best skilyrði til þess að uppgötva hæfileika sína,
rækta þá og neyta þeirra. En er ekki fullt og jafnt frelsi einstak-
linganna nauðsynlegt til þess? Ég kann ekki að koma betri orðum
að þessari hugsun en Jónas H. Haralz hagfræðingur, sem skrifaði