Skírnir - 01.01.1986, Page 289
SKÍRNIR
MÝRDALSSANDUR - ÁLFTAVER
285
Sveinn Pálsson nefndi Kötlujökul, og bregður því nafni fyrir
ennþá.
Sunnan vegar ná gróðurteygingar nokkru vestar, en að öðru
leyti er þar gróðurlaust að undanskildum nokkrum blettum sem
melgresið hefur helgað sér. Er svo allt að Hjörleifshöfða, hinum
svipmikla bergkastala sem rís tign upp úr auðninni, en með
ströndinni var breitt auðnarbelti allt að Reynisfjalli, en nú hefur
sandgræðslan og einstaklingar breytt henni í grænt gróðurteppi
frá fjallinu og austur að Kerlingardalsá. Margar sagnir herma að
þetta geysistóra svæði hafi um landnám verið að mestu gróið land
og sumum þeirra verður ekki að öllu hægt að mótmæla samkvæmt
rituðum heimildum.
Áður en lengra er haldið að ræða um gróður á sandinum, er rétt
að gera sér nokkra grein fyrir þeirri geysimiklu breytingu sem
orðið hefur á ströndinni frá landnámi við þann stóra landauka
sem Kötluhlaupin hafa skapað með vikur- og aurburði í sjó fram.
Austan Hjörleifshöfða er ekki gott að gera sér fulla grein fyrir
landaukanum, því um það skortir algjörlega ritaðar heimildir.
Vafalaust hefur hann orðið allmikill. Um landið vestan Höfðans
og við hann eru til ritaðar heimildir, sumar ábyggilegar. Þá geym-
ast enn örnefni er segja sína sögu ef vel er að gætt.
Elsta ritaða heimildin er vitaskuld Landnámabók, enda þótt
staðfærsla sé örugglega röng að hluta. Þegar sagt er frá landtöku
Hjörleifs, segir að fjörður hafi verið inn með Höfðanum að vest-
an „oghorfði botninninn að höfðanum“. Eftirþví hefursjór legið
að sunnanverðum Höfðanum um landnám. Þetta má athuga nán-
ar og nærri örugglega sanna, að rétt sé frá sagt. Standberg allmik-
ið í suðvesturhorni Höfðans heitir ennþá Rituberg. Nafn sitt hef-
ur það ugglaust fengið af því að þar hafa ritur orpið, en það gerir
ritan tæpast nema sjór falli að berginu. Þá hef ég fundið þar í rakri
skoru nokkrar plöntur af skarfakáli, en þær hef ég ekki fundið í
Mýrdal, nema í sjávarhömrum. í Landnámu segir ennfremur:
Eysteinn hét maður, son Þorsteins drangakarls; hann fór til Islands af Há-
logalandi og braut skip sitt, en meiddist sjálfur í viðum. Hann byggði Fagra-
dal, en kerlingu eina rak af skipinu í Kerlingarfjörð; þar er nú Höfðársandur.
(íslendingabók, Landnámabók, íslenzk fornrit I, bls. 332.)