Skírnir - 01.01.1986, Page 319
SKÍRNIR
UPPHAF ANNO 1935
315
Sverrir, sem er öllu hyggnari, kýs að hverfa brott, sárnauðugur
þó. Var hann þá að vísu kominn í vonlausa stöðu gagnvart kven-
fólkinu. Þeim Ara hafði reyndar tekizt að skipa málum með sér
um hvaðeina sem laut að ytri tilhögun; þeir höfðu reist sér hús og
síðan skipt því á milli sín ásamt öllum eignum, stórum og smáum.
En í persónulegum samskiptum var misklíð sem ekki tókst að
jafna þrátt fyrir góðan vilja. Hér eru það sálræn öfl, einkum þó
hvatalífið, sem raska öllum ásetningi þeirra og afleiðingin er upp-
lausn. Að lyktum getur Ari ekki hrósað neinum sigri, ekki svo
mikið sem sýndarsigri, því að öll vita þau, Sverrir, Ari og Ragn-
heiður, að Ari lifir eins og í gröf sem Sverrir hefur kalkað. Svo fer
að lokum að allir hrekjast úr þessari paradís sinni undan þeim
ófriði sem ástríður þeirra hafa valdið.
Sögupersónurnar eru annars ekki jafnskýrt mótaðar og ýmsar
persónur í síðari verkum Guðmundar og tæplega jafn eftirminni-
legar.
Svo sem fyrr segir snýst atburðarásin um tvo menn, ókvænta
þegar sagan gerist, og þrjár konur.
Ari er 23 ára, úthverfur og nokkuð útsláttarsamur eins og
vænta má af manni á þeim áldri; að auki skortir hann ábyrgðartil-
finningu. Sú verður raunin að hann lætur fremur stjórnast af hvöt-
um sínum en vilja sem lýtur aga siðgæðisvitundar. Ragnheiður
etur honum síðan í algerar ógöngur sem hann kemst ekki úr, enda
gerir hann ekkert til þess svo að séð verði. Leitar hann þá ósjálf-
bjarga á náðir bróður síns.
Ara er betur lýst en Sverri sem er sjö árum eldri. Áhuga-
verðir drættir eru þó í lýsingunni á Sverri. Hann er siðavandur, og
það sem meira er: siðaprédikari; ást hans er andleg og engum
dylst að hann er feiminn, jafnvel hræddur við að tjá kenndir sínar
og láta undan hvötum sínum (bls. 61-63). Hann virðist ætla að
spjara sig í lífsbaráttunni, en sé því gaumur gefinn hvernig hann
stendur að lausn mála, verður að játa að þær verða honum dýr-
keyptar og færa hann ekki að markinu; hið gagnstæða verður
jafnan uppi á teningnum. Þær spilla milli hans og unnustunnar og
valda að lokum fullum vinslitum. Hann þjáist alla ævi og á hvíta-
sunnumorgni getur hann með gildum rökum litið á sig sem „þján-
ingarbróður rjúpunnar" sem hann horfði á við sundurtætt hreiður