Skírnir - 01.01.1986, Page 329
SKÍRNIR
RITDÓMAR
325
hans, Einar Hálfdánarson, var sonur sr. Hálfdánar Einarssonar á Eyri í
Skutulsfirði og bjó þar um tíma á móti föður sínum. Kom hann allmjög við
sögu er Eyrarhreppi hinum forna var skipt og Isafjarðarkaupstaður stofnaður.
Frá Eyri fluttist hann í Fremri-Hnífsdal, þar sem hann bjó um skeið, en síðan
að Hvítanesi. Einar Hálfdánarson var hinn merkasti maður og lét eftir sig
handskrifaðar minningar um búskaparár sín á Eyri og í Fremri-Hnífsdal. Eru
þær merk heimild. Móðir Einars Guðfinnssonar var aftur á móti úr Skagafirði.
í upphafi bókar er grein gerð fyrir forfeðrum söguhetjunnar, en hin eigin-
lega saga hefst í Litlabæ, sem var jarðarskiki, sem foreldrum Einars, Guðfinni
Einarssyni og Halldóru Jóhannsdóttur, hafði verið byggður úr landi Hvíta-
ness. I Litlabæ fæddist Einar Guðfinnsson 17. maí 1898. Jarðnæði var lítið í
Litlabæ, en eins og víðar á Vestfjörðum björguðust menn mest af sjónum, áttu
reyndar allt sitt undir sjósókn og aflabrögðum, þótt þeir væru kallaðir bændur
í opinberum skýrslum.
Einar byrjaði ungur að róa til fiskjar í Skötufirðinum og segir lítilsháttar frá
þeirri sjósókn og frá miðum í firðinum. Þrettán ára gamall reri hann fyrst úr
Bolungarvík með föður sínum og sótti síðan sjó úr Víkinni á hverri vorvertíð,
allt fram til 1919. Þaö ár var hann formaður á sexæringi í Bolungarvík og mun
það hafa verið síðasta úthald áraskips þaðan á vetrarvertíð. Útgerðarsaga
Einars hófst hins vegar árið 1915, er hann varð formaður á tveggj a manna fari,
sem gekk úr Tjaldtanga, en svo nefnist ysti hluti Folafótar, nessins á milli
Hestfjarðar og Seyðisfjarðar í Djúpi.
í Tjaldtanganum byggði Einar, í félagi við föður sinn og bróður, upp all-
nokkra útgerðaraðstöðu, á þeirra tíma mælikvarða, en fluttist um áramótin
1919-1920 til Hnífsdals, þar sem hann bjó til 1924, er hann festi kaup á eignum
Hæstakaupstaðar h. f. í Bolungarvík og fluttist þangað.
í Bolungarvík varð saga Einars brátt svo samofin sögu byggðarlagsins, að
vart verður á milli greint, en jafnframt saga íslensks sjávarútvegs í hnotskurn,
einkum þó eftir að kom fram yfir síðari heimsstyrjöld.
Þegar Einar fluttist í Víkina var erfitt um vik til útgerðar og fiskverkunar og
hafði Bolungarvík þó verið ein stærsta verstöð landsins um aldir. Um miðjan
3ja áratuginn var sú breyting hins vegar á orðin í íslenskum sjávarútvegi, að
vélbátar höfðu að mestu leyst árabáta og seglskip af hólmi og fóru sífellt
stækkandi. Enginn mun mæla gegn því að þessi þróun hafi verið hvort tveggja
í senn, óhjákvæmileg og heillavænleg, en hún hafði gífurleg áhrif á byggða-
þróun á Vestfjörðum - og reyndar víða um land - og hefur ekki verið nægileg-
ur gaumur gefinn af fræðimönnum.
Með tilkomu vélbátanna var grundvellinum kippt undan útgerð úr mörgum
aldagömlum verstöðvum við Djúp. Fyrir sjósókn á vélbátum skipti fjarlægðin
frá útgerðarstaðnum á miðin miklu minna máli en þegar róið var á áraskipum,
en hins vegar var meiri þörf á góðri hafnaraðstöðu. Hafnargerð var hins vegar
dýrara fyrirtæki en svo að fámennar verstöðvar fengju undir risið og því hlaut
útgerðin að færast til þeirra staða, þar sem hafnir voru fyrir. Árabátaútvegur-
inn varð ekki samkeppnisfær við vélbátaútveginn og því fylgdi fólkið vélbát-