Skírnir - 01.01.1986, Page 331
SKlRNIR
RITDÓMAR
327
og annað það er að sjávarútvegi lýtur. Orðfæri hans er hressilegt og fellur vel
að söguefninu.
Einars saga Guðfinnssonar er óneitanlega vel gerð og vel heppnuð bók, en
þó er því ekki að neita, að í einstökum tilvikum hefði mátt gera betur. Hið
fyrsta er, þar sem greinir frá sjósókn og útgerð úr Tjaldtanganum á æskuárum
Einars. Þar hefði ég kosið að fá mun ýtarlegri frásögn af útgerðinni á þessum
stað. Útgerð frá ýmsum stöðum við ísafjarðardjúp í upphafi vélbátaaldar er
merkur þáttur vestfirskrar útgerðarsögu. Nú er þessi útgerð horfin fyrir löngu
og þeir fáir, sem muna hana - Einar hefur að líkindum verið einn hinna síð-
ustu. Af þessum sökum hefði verið fróðlegt, ef tekist hefði að gera þessum
þætti nokkru ýtarlegri skil, líkt og gert er við ýmsa þætti í bolvískri sögu, sem
ekki geta talist hluti af ævisögu Einars Guðfinnssonar.
1 annan stað hefði verið fróðlegt, ef brugðið hefði verið upp myndum úr
rekstrarsögu fyrirtækja Einars, myndum, sem hefðu sýnt afkomu þeirra svart
á hvítu, t. d. með því að birta sýnishorn af rekstrarreikningum með nokkurra
áratuga millibili. Vexti og viðgangi fyrirtækjanna er að sönnu gerð góð skil í
textanum, en þó er ekki að efa að margir lesendur hefðu gert sér gleggri grein
fyrir uppbyggingunni ef þeir hefðu haft tölur fyrir framan sig.
Loks er að nefna heimildanotkun. Þess var getið í upphafi, að skrásetjarinn
hefði víða leitað fanga við öflun upplýsinga. Sá ljóður er þó á ráði hans, að
hann getur ekki heimilda sinna nema stundum, og engin regla er á þvf hvort
heimilda er getið eða ekki. Sá sem þetta ritar kann ekki að meta slík vinnu-
brögð. Þeir, sem fást við að semja bækur, sögulegs efnis, ættu allir að gera sér
það að skyldu að geta heimilda sem skilmerkilegast. Þá verða bækurnar ekki
einungis fróðlegar, heldur auðvelda þær jafnframt lesendum leitina að enn
meiri fróðleik.
Allur frágangur bókarinnar er með ágætum og prentvillur fáar. Á bls. 258
hefur þó eitthvað skolast til, en þar segir orðrétt og er átt við byggingu brim-
brjótsins:
„Heildarkostnaður frá 1911 var þá orðinn um 300 þúsund krónur. Þar af
hafði ríkisframlag numið 271 þúsund krónum, en Hólshrepps 229 þúsund
krónum...“
Ekki þarf mikinn reikningshaus til að sjá, að þessar tölur stemma ekki, en
erfitt að sjá, hver þeirra er vitlaus.
Eins og áður sagði er saga Einars Guðfinnssonar ævintýri líkust. Á þessari
bók er hún sögð á skemmtilegan og læsilegan hátt og ættu allir, sem áhuga hafa
á íslenskri sögu, hvort sem er atvinnu-, persónu- eða byggðasögu, að hafa að
henni gagn og gaman.
Jón Þ. Þór