Skírnir - 01.01.1986, Page 335
SKÍRNIR
RITDÓMAR
331
Gulleyjan er kynnt sem sjálfstætt framhald fyrri bókarinnar og því hlýtur
ein sú fyrsta spurning sem hjá lesanda vaknar að vera hversu háð hún sé fyrri
bókinni. Hvort Gulleyjan virki sem sjálfstæð saga og þá á hvaða hátt. Er hún
einungis endurtekning á Djöflaeynni, útþynning, þarflaust blek . . .?
f stuttu máli svarað þá er Gulleyjan að flestu leyti betri bók en Djöflaeyjan;
hún er bókmenntalega séð álíka miklu betri og titill hennar er þekkilegri, án
þess þó að nokkurri rýrð sé varpað á þá fyrri. Hún myndar þann grunn sem
húsið rís síðan fullbyggt af. Einar nýtir nefnilega mjög vel þá miklu möguleika
sem stóðu honum opnir að lokinni Djöflaeynni. Hann hafði þar búið til fjöl-
skrúðugt safn persóna og sem heimssmiður smíðað sér tiltölulega markaðan
heim. f Gulleyjunni verður hins vegar persónusköpun hans dýpri; eðlileg
þróun á vissan hátt þar sem persónur og umhverfi voru þegar til staðar og því
hægt að dýpka og skerpa myndina. Einar sýnir með þessari bók að rithöf-
undarhæfileiki hans liggur ekki bara í ótvíræðri sagnagáfu, eins og þegar var
vitað, heldur einnig í sköpun lifandi persóna, sem í senn eru margslungnar og
einfaldar, harmrænar og broslegar.
Einar notar frásagnaraðferð sem um margt minnir á aðferð sem ekki minni
menn en höfundar fslendingasagna iðkuðu af hvað mestri snilld og við þekkj-
um í seinni tíð einna helst af sögum Gabriels Garcia Marques; aðferð spásagn-
ar. Þriðju persónu höfundur gefur atburði sífellt í skyn, íjar að hinu og þessu
og kyndir um leið undir margháttaða óvissu og spennu; er forspár eða lætur
öllu heldur að því liggja því rangt er að nota sögnina að spá því sannarlega er
skáldið alviturt og hefur alla atburði sögunnar í hendi sér. Þannig hefðu glögg-
ir lesendur Djöflaeyjunnar getað séð að Danni ætti uppreisn æru í vændum og
að hann yrði ein af burðarstoðum þessarar sögu. Og ýmislegt bendir líka til
þess að Bóbó litli halti geti orðið höfundi drjúg kjölfesta í næstu sögu, hvenær,
hvort eða hver sem hún verður.
En Danni er óneitanlega hryggjarsúlan í byggingu Gulleyjunnar. Hún
grundvallast á hans persónu og er að nokkru í samræmi við klassískar
kenningar um ris, hápunkt og hnig. Bókin skiptist í þrjá hluta sem allir
hverfast um tiltekið ástand Danna. f fyrsta hluta er hann kolbíturinn í ösku-
stónni, unglingurinn í skápnum, einmana og innhverfur sem tárast af litlum
tilefnum og minnir í ýmsu á marga af forverum sínum í sagnaheimi. Annar
hluti hefst hins vegar á „upprisu“ Daníels, sem reynist vera hetja sem flýgur
skýjum ofar, stolt fjölskyldunnar í Gamla húsinu. Reyndar minnir sagan um
flug hans og fall um margt á goðsöguna um íkarus. Blindaður af sól flýgur
hann á hæsta tind landsins og brotlendir. í þriðja hluta er hann orðinn minning
um mann. En heilög minning sem setur mikinn svip á líf sinna nánustu.
Danni er sumsé í aðalhlutverki, en hann er líka trúlega best gerða persóna
sögunnar. Hann vekur með lesanda ýmis hughrif og kenndir, samúð og skiln-
ing oftast nær. Minningar hans frá Ameríku eru til að mynda mjög sterkar; í
þeim er sálfræðileg dýpt og vel heppnuð af hálfu höfundar. Þar við bætist að
einhverjir bestu kaflar bókarinnar eru dagbókarfærslur, sem auka verulega
vídd hans umfram aðrar persónur: