Skírnir - 01.01.1986, Síða 338
334
PÁLL VALSSON
SKÍRNIR
til hans kyrjandi rokkballöður úr iðrum rústanna . . . En einhver yrði
að sleppa úr eldinum og hefna, tengdasonurinn í húsinu, mágur Badda
. . . Grettir? Nei, það gengi aldrei. . . Þctta hefði aldrei gengið.
Einar Kárason notar þau stílbrögð sem einatt hafa reynst áhrifaríkust þegar
menn eru að segja sögu: ýkjur og alls kyns öfgar, að mikla upp atburði og fara
með þá á ystu nöf hins trúanlega. Eins og Einar sagði sjálfur, í merku viðtali
í tímaritinu Teningi, þegar hann var spurður hvort hann færi nú ekki út í öfgar
á vissum stöðum: „Annars væri það ekki söguefni. Bjartur í Sumarhúsum
gengur líka út í öfgar.“ Fjölskylda Fíu og Tóta er einkum öfgafull í skefjalaus-
um sparnaði sínum og lífsafstöðu, sem ráða má af ýmsu að ekki er höfundi
hjartfólgin því þau reynast vera lævís og undirförul ofaná allt saman. í raun-
inni verða andstæðurnar í því tilviki nánast of svarthvítar. Gegnt fjörmikilli
fjölskyldu Gamla hússins, sem hlýtur að verða flestum lesendum kær, er stillt
einhverri minnst aðlaðandi fjölskyldu í íslenskum bókmenntum samanlögð-
um.
Ýkjurnar einkenna líka þá persónusköpun Einars sem lýtur að aukapersón-
um, og eiga þær ýkjur sinn þátt í „raunsæi" sögunnar. Þá er staldrað við sköll-
óttan ungling, dreng sem keðjureykir frá tíu ára aldri, utanaðkomandi kana
sem heimta peninga úr lúnu veski Tómasar smákaupmanns og þannig mætti
lengi telja. Trúlega er þessi rækt við aukapersónur og smáatvik ein af styrk-
ustu stoðum bókarinnar, því hér nýtur frásagnargleði höfundar sín best.
Eins og svo margir sagnahöfundar byggir Einar sögu sína á andstæðum.
Fjölskyldan í Gamlahúsinu — fjölskylda Fíu ogTóta, braggahverfið — Lista-
mannablokkin og þær blokkir í kring, ísland — Ameríka; þetta eru nokkrar
af hinum stóru andstæðum í sögunni. Síðan greinist hún í ótal smærri andstæð-
ur persóna og stílbragða. Eitt dæmi: Það er beinlínis myndrænt stílbragð að
það skuli vera risinn Danni, einn stærsti maður sem þá sést á götum úti miðað
við lýsingu bókarinnar, sem fær minnsta herbergi hússins, skápinn svokallaða
þar sem hann kúldrast með margvíslegt dót sitt.
Gulleyja Einars Kárasonar er ekki einvörðungu skemmtileg skáldsaga; hún
speglar líka tiltekinn tíma þjóðarsögunnar frá ákveðnu sjónarhorni og hef-
ur að ýmsu leyti til að bera frumlega sýn á þá. Áður er minnst á að sagan
hefur að burðarefni líf íbúa braggahverfis, sem er nokkur nýlunda í íslenskum
bókmenntum. Einar skoðar það með talsvert annarri aðferð en Elías Mar í
Sóleyjarsögu sinni. En Gulleyjan, og líka Djöflaeyjan, fjalla um einhverja
áhrifamestu tíma í lífi þjóðarinnar; hið skyndilega ríkidæmi, hermangið,
vinnuþrælkunina og allt sem sigldi í kjölfarið á peningaeign landsmanna. í
bókinni er að finna samtímamyndir eins og þessa:
Þegar þetta gerðist var hásumar og landsmenn í uppsveiflu; þjóðin
var gripin bjartsýnisæði, enda var hún ung og trúuð á framtíðina.
Vinnu var svo mikla að fá að hver sem vildi hefði getað þrælað sér til
bana. Og fengið stórriddarakross með stjörnu á leiðið. Nú var svo