Skírnir - 01.01.1986, Page 352
348
KRISTJÁN ÁRNASON
SKÍRNIR
isma á nýöld, en það er einmitt þar sem Jóhann virðist hafa fundið sér fyrir-
myndir, einkanlega meðal skálda á Englandi á 17. og 18. öld og þá sérstaklega
þeirra sem voru kenndir við metafýsík eða háspeki og kunnu þá list að leggja
í skáldskap „skynjaða, ástríðufulla hugsun“, eins og Kristján Karlsson orðar
það í inngangi, og sú skilgreining áraunar býsna vel við skáldskap Jóhanns þar
sem honum tekst vel upp.
Það sem er fyrirferðarmest í hinni nýju kvæðabók Jóhanns og setur því
einkum svip á hana eru þrjátíu og fjögur kvæði undir heitinu „spökur“, en
„spakan“ má teljast einhvers konar „jóhönnsk“ útgáfa af því sem í fornöld og
einnig síðar meir var kallað „epígramm". En spökur þessar eða „epígrömm"
eru einkum sérstæðar að því leyti að þar er hvorki viðhaft svonefnt „distík-
hon“ eða tvílínungur eins og í fornöld né heldur ferskeytlan íslenzka, sem hér
á landi hefur löngum þjónað sama hlutverki og „epígrömmin" fornu, heldur
er það ferhenduháttur „tjaldarans“ Kajams eða réttara sagt afbrigði Fitzger-
aldsafhonum,og gefur það þessum spökum glettnislegan blæ fremur en alvar-
legan eða „spaklegan“. Reyndar líkir höfundurinn á einum stað spökum sín-
um við kökur og varar við innantökum af þeim, en sú aðvörun er trúlega
óþörf, því spökurnar renna ljúflega niður og eru léttmeltar, þótt sums staðar
megi að vísu finna í þeim nokkuð beiskan keim, svo sem:
Úr draumasælu að hrökkva upp í hljótt
og helsvart myrkrið kalda vetrarnótt
er ekki eins bölvað eins og hitt er gott
frá illum vökudraumi að sofna rótt.
En það krydd sem einkum gefur þessum kökubakstri Jóhanns bragð er eins
og áður fyndni hans. Sönn fyndni er raunar fágætari en margir halda, þótt hinir
og þessir menn standi auðvitað í þeirri meiningu að þeir séu afskaplega fyndn-
ir og skemmtilegir og heil kynslóð höfunda hafi nýverið fengið á sig vörumerk-
ið „fyndna kynslóðin". Það er reyndar full ástæða til að gera greinarmun á
ýmsum stigum þess sem kallast fyndni, allt frá aulafyndni og hótfyndni og
meinfyndni (þ. e. „íslenzkri fyndni") til þess sem mætti kalla háspekilega
fyndni og felst, eins og Kristján Karlsson orðar það, í „óvenjulegu næmi á
skyldleika og líkingu í hvers konar ósamræmi“. Það er einmitt fyndni af þessu
tagi sem Jóhann ber svo oft á borð, og gott dæmi um hana er kvæði sem nefnist
íhlutanir þar sem líkingin er milli bíls sem spólar og skálds sem yrkir, og má
þar vart á milli sjá hvor aðilinn spóli meir. En þessi fyndni eða fundvísi á tengsl
getur einnig birzt á ranghverfan hátt og með alvarlegri blæ og sýnt okkur hið
andstæða í hinu hliðstæða, ef svo má að orði komast, svo sem í kvæði er nefnist
Ljóðhús. Það kvæði er reyndar hið eina í bókinni sem er með öllu órímað en
er engu að síður hnitmiðað í byggingu og óræk sönnun þess hve orðið „hagyrð-
ingur“ nær skammt til að lýsa hæfileikum Jóhanns á sviði ljóðlistar: