Skírnir - 01.01.1986, Síða 383
SKlRNIR
RITDÓMAR
379
og reyndar til skemmtunar. Sem dæmi um þetta má nefna frásögnina um Ás-
byrgi (N-Þing), bls. 60 í 1. bindi. Þar er minnt á þjóðsöguna um að Ásbyrgi sé
hóffar eftir Sleipni, hest Óðins, og sé Eyjan far eftir hóftunguna.
1 kvæðinu Sumarmorgunn í Ásbyrgi kemst Einar Benediktsson svo að orði:
Sögn er, að eitt sinn um úthöf reið
Óðinn og stefndi inn fjörðinn.
Reiðskjótinn, Sleipnir, á röðulleið,
renndi til stökks yfir hólmann, á skeið,
spyrnti í hóf, svo að sprakk við jörðin, -
sporaði byrgið í svörðinn.
Margfróður maður sagði greinarhöfundi, að eina sögnin um hóffar Sleipnis
væri frá Einari komin. Hér væri því ekki um þjóðsögu að ræða heldur skáld-
lega líkingu Einars, sem svo vel hafi fallið almenningi, að án vafninga hefði því
verið trúað, að þessi sögn hefði verið á kreiki um aldir.
Fjórum stöðum er gefinn sá gaumur, að um þá eru skrifaðir sérstakir kaflar.
Eru það Bessastaðir, Reykjavík, Vestmannaeyjar og Þingvellir. Þótt efni
kaflanna sé hið markverðasta, er álitamál, hvort þeir eigi erindi inn í orðabók.
Bessastöðum eru gerð skil með viðunandi hætti í fyrsta bindi verksins. Stað-
setning ritgjörðar um Bessastaði í sjötta bindi er a. m. k. harla óeðlileg. Fjall-
að er um einstakar eyjar Vestmannaeyja og markverða staði á Þingvöllum eft-
ir því sem nöfn þeirra raðast í stafrófsröð og því takmörkuð þörf á að fjalla aft-
ur um staðina í yfirlitskafla. Þessu er öðruvísi farið með Reykjavík. Staðar-
heiti í Reykjavík eru yfirleitt tilgreind í stafrófsröð en ekki um þau fjallað með
öðrum hætti en að vísa til kaflans um Reykjavík.
Um alla þessa staði hafa verið ritaðar mjög frambærilegar bækur sem hefði
mátt vísa til frekar en að bregða á þennan leik. Athyglisvert er, að nefndar rit-
gjörðir hefjast með skýrumfyrirsögnum en eru ekki afmarkaðar í lokin. Þann-
ig flyst lesandinn án sérstakra auðkenna frá Öskjuhlíð í Reykjavík til Reyni-
hlíðar í Suður-Þingeyjarsýslu og frá Öxarárhólma til Þingvalla á Snæfellsnesi.
Þótt hér hafi verið drepið á nokkur atriði, er hugsanlega megi betur fara, má
því ekki gleyma, að greinarhöfundur er sáttur við flestar þær upplýsingar, sem
finna má í ritinu. Landið þitt er tvímælalaust áhugavert safn og verður lestur
þess öllum til ánægju og fróðleiks. Með því er mælt, að sem flestir gefi bókum
þessum gaum og komi ábendingum á framfæri um það, er þeir telja til bóta.
Við munum þá í náinni framtíð eignast enn betri bækur.
Þökk sé þeim, er hófu þetta verk.
Höskuldur Jónsson