Skírnir - 01.01.1986, Page 399
SKlRNIR
RITDÓMAR
395
glettni og til að ganga fram af mönnum (að minnsta kosti prestum), feli í sér
nokkurn sannleika. Húmanistinn Vilmundur var á sinn hátt andlegrar stéttar
maður, gamansamur alvörumaður, sem prestar hafa vafalaust fundið, að gott
var að ræða við um mannleg vandamál, þó að sennilega hafi verið nokkuð
djúpt á trúarjátningum hans. Þó að mjög svo ólíkum sé saman að jafna, þar
sem eru þeir Vilmundur og dr. Björn K. Þórólfsson, sem vildi gjarnan láta líta
á sig sem heiðingja, voru þeir að því leyti ekki óáþekkir, að báðir kunnu góð
skil á margs konar trúarbrögðum og hinum sundurleitustu sértrúarkenning-
um, enda fór vel ámeð þeim, meðan báðir lifðu. Ummælin um drykkjurútana
eiga vafalaust rót sína að rekj a til þess, að höfundur var óvenj ulega næmur fyr-
ir ónæði af völdum drukkinna manna og að hann tók mörgum öðrum og ekki
sízt mörgum öðrum algerum bindindismönnum sárara til umkomuleysis alkó-
hólista, ekki sízt þeirra, sem orðnir voru algerir utangarðsmenn í þjóðfélag-
inu. Dálítið er það undarlegt að sjá það í þessari grein og verða þess var af
kynnum, að höfundi fannst fátt um skírnarnafn sitt, sem að vísu er ekki í röð
hinna algengari mannanafna, en þó laust við að vera sérkennilegt, hvað þá
ankannalegt, enda báðir nafnliðirnir mjög algengir (I, bls. 65).
Eftir messur er fyrir margra hluta sakir einn hinna minnisverðustu þátta í
fyrra bindi ritsins. Nafnið er miðað við það, að Hornstrendingar sigu aðallega
í björg til eggjatöku um messur, þ. e. á tímabilinu frá Jónsmessu til þingmar-
íumessu (24. júní-2. júlí), en höfundur hafði ekki komizt í langþráð ferðalag
um Hornstrandir fyrr en 10. ágúst (1928) frá Isafirði. Förunautar voru Þór-
bergur rithöfundur Þórðarson, gistivinur Vilmundar, og ekki alls ókynlegur
sænskur málfræðingur, ungur að árum. Höfundur er fullkomlega í essinu sínu,
þegar komið er á þessar slóðir, hvort sem hann lýsir náttúrufari eða mannlífi,
hrikaleik eða sumardýrð og einstaklega góðu viðmóti fólksins, þó að ekki væri
langt aftur í tímann að leita frásagna um geigvænlega atburði, sem gerðust á
þessum slóðum. Stórfengleg er lýsing höfundar á gestrisni fólksins og undrun
Svíans, sem lengi vel hélt, að fólkið byði fram allt, sem það gat best gert í þágu
þessara ferðalanga, eingöngu í því skyni að geta féflett þá sem herfilegast. Ég
geri ráð fyrir, að óvíða í heimsbókmenntunum sé betur saman ofin náttúrulýs-
ing og lýsing á barnsskírn en á skírn, er fram fór á bænum Smiðjuvík, höfð eft-
irséra Jónmundi Halldórssyni (I, bls. 88-90). Skal hér ósagt látið, hvor þeirra
á meiri höfundarrétt að lýsingunni.
Þó að viss aðdáun Vilmundar á mannlífi á Hornströndum leyni sér ekki,
gerði hann sér þó ljóst, við hvílíka örðugleika var oft að etja í þessu stórbrotna
umhverfi. Hann kemst t. d. á einum stað í þessum þætti svo að orði um Sig-
rúnu Guðmundsdóttur, húsfreyju í Smiðjuvík og víðar: „Mun tröllskapur og
kynngi átthaganna meira hafa bugað hana en eflt, og þekkjast óneitanlega
dæmi slíks um Hornstrendinga, ekki sízt konur. Hjálmar og Sigrún höfðu
áður búið á Hrafnfjarðareyri í Jökulfjörðum, en fluttust til Smiðjuvíkur, er
Jens Jónsson, tengdasonur Sigrúnar, veik þaðan eftir mikil örlög. Tvær eig-
inkonur sínar missti hann í Smiðjuvík með stuttu millibili, báðar af barnsför-
um, aðra 26 ára, en hina 22 ára. Til hvorugrar hafði náðst ljósmóðir, hvað þá