Skírnir - 01.01.1986, Qupperneq 406
402
BJARNI VILHJÁLMSSON
SKÍRNIR
mag art.), að séra Bjarni Gissurarson (um 1621-1712) í Þingmúla nefnir Val-
týsvetur í kvæðum sínum. Sýnir það glögglega, að leita þarf langt aftur í tímann
eftir sannsögulegum atburðum, sem þjóðsagan af Valtý á grænni treyju kann
að eiga rætur sínar til að rekja. (Ekki virðist þetta nafn á harðindavetri þekkj-
ast í annálum.) Einnig er rétt að geta þess, að nokkur örnefni á Austurlandi
tengjast sögnum um sakamenn með Valtýsnafni, og virðast þær sagnir óháðar
hinni margumræddu Valtýssögu. Mér er og til efs, hvort Valtýshellir í Hjálp-
leysu er frá upphafi tengdur sögunni um Valtý á grænni treyju, því að sá hellir
er hvergi tilnefndur nema í sögugerð Magnúsar. Af íslenzku fornbréfasafni
má sjá, að mannsnafnið Valtýr hefur tíðkazt á Austurlandi og í grennd við það
báðum megin frá því á 15. öld. -Til gamans skal þess getið, að Jón í Njarðvík
(einn skrásetjenda) skrifaði alltaf Valtýr í grænni treyju.
Því hefur verið fjölyrt svo um þessa sögu hér, að Austfirðingum hefur lengi
verið hún hugleikin. Framlag Vilmundar til umræðu um söguna er snjallt og
þakkarvert, en með því er þó ekki afhjúpaður allur leyndardómur hennar.
Enn sem komið er, virðist tilgangslaust að leiða að því frekari getum, hvort
sannsögulegir atburðir liggja að baki sögunni eða ekki. Vera má þó, að yfir
vötnum hennar hvíli kaþólskur helgiblær. Hvað sem því líður, stendur hún
fyrir sínu sem dæmisaga um það, að þrátt fyrir réttarmorð nær sannleikurinn
að sigra um síðir með tilheyrandi refsidómum Guðs, sem fram að fullnægingu
réttlætisins hefur látið lögmál byrst lemja og hræða, eins og þar stendur.
Grátiðfyrir gull er listileg lausn á uppruna spaklegs kviðlings, sem höfundur
hefur haft eftir móður sinni. Raunar mátti háttur kviðlingsins vera vísbending
um, að hann ætti fremur rót að rekja til kvæðis en vera sjálfstæð lausavísa frá
upphafi. En góður fengur er að því að fá þessa þræði svo skilmerkilega saman
rakta sem höfundur gerir. Mannfræðilegar skýringar hans kunna einnig að
bæta upp það fyrir mörgum lesandanum, sem honum finnst kvæðið í heild á
skorta í skáldlegum tilþrifum, þó að vel sé af stað farið.
Skarkári á Látrum er bráðsnjöll lýsing á og frásögn af dularfuilu fyrirbæri,
sem engin leið er að rengja trúverðugt og hjátrúarlaust fólk um, hver sem or-
sök atburðanna kann að hafa verið. Ég vona, að ég fari ekki með neitt fleipur,
þó að ég fullyrði, að orðið skarkári sé nýyrði Vilmundar yfir þýzka og að segja
má alþjóðlega orðið Poltergeist. Svo nýtt er íslenzka orðið, að það hefur ekki
enn fengið inngöngu í íslenska orðabók Menningarsjóðs, en sess hefur það
hlotið í hinni veglegu Ensk-íslensku orðabók þeirra Sörens Sörenssonar og
Jóhanns Hannessonar undir poltergeist.
Samanburður Vilmundar á mismun fólks eftir landshlutum, sem fram kem-
ur í frásögn, sem fylgir eftirminnilegum vísum Eiríks bónda Guðmundssonar
um sólarganginn í Syðrafirði í Lóni, í þættinum Skaftfellingar og Þingeyingar
sver sig sannarlega í ætt við bókarhöfund, þar sem Skaftfellingur kemst ekki
hjá að storka Þingeyingi.
Þátturinn Vélamenningu fagnað á Staðarhrauni er ekki stórbrotinn, en
bregður skemmtilegu Ijósi yfir hina skammvinnu skilvinduöld á íslandi og