Skírnir - 01.04.1998, Blaðsíða 37
SKÍRNIR
NORÐAN VIÐ KALT STRÍÐ
31
er helsta niðurstaða hans sú, að ísland er landið þar sem einstæð-
ur bókmenntaarfur sem og aðrar menningarhefðir lifa góðu og
öflugu lífi. Einmitt þess vegna á íslenskt samfélag sér ekki einung-
is mjög skýra sérstöðu að dómi hins rússneska fræðimanns - það
reynist um leið í mörgum veigamiklum þáttum betri samastaður í
heiminum en flest önnur samfélög.
I Kúltúra Islandii fá Islendingar að heita afreksmenn fyrir að
varðveita sína fornu og auðugu tungu þrátt fyrir fámenni, örbirgð
og erlend yfirráð. í framhaldi af því hljóta Frónbúar samtímans
mikið lof fyrir hreintungustefnu sína og hugvit við smíði nýyrða
yfir öll möguleg fyrirbæri sem skjóta upp kolli og heimta á sig
nafn: þota, rafmagn, skriðdreki, þjóðnýting. Og er ekki laust við
að velviljaðrar öfundar gæti í þessari lýsingu rússnesks manns,
sem ef til vill finnst nóg um það hve galopið hans móðurmál hef-
ur lengi staðið tökuorðum úr öllum áttum.16 Það er ennfremur
tekið fram að íslendingar séu síyrkjandi og farandi með kvæði og
lausavísur og þetta hjálpi þeim m.a. til að glutra ekki niður ríku-
legum fornum orðaforða (bls. 94). Þá rekur íslandsvinurinn rúss-
neski það með velþóknun hve mikið Islendingar lesi og gefi út og
hve vel þeir kunni að tengja íslendingasögur við sjálfa sig, bæði
með ættfræði og með því að lesa sögurnar saman við náttúruna,
við sitt umhverfi: hér gekk Njáll um garða, hér var Gunnar veg-
inn (bls. 144-45). Meira að segja íslensk hjátrú, sem ætla mætti að
sovétrússneskum vísindamanni þætti fráleit, fær einkar jákvæðan
svip í þessari Islandslýsingu. Islendingar, segir þar, hafa miklar
mætur á draugasögum, m.a. vegna þess að þær tengja þá rækilega
við það líf sem lifað hefur verið í landinu, við forna munnlega frá-
sagnahefð og eru þeim „tákn um sérstöðu íslenskrar þjóðmenn-
ingar“ (bls. 170).
I lýsingu Steblins-Kamenskijs gengur fortíðin ljósum logum á
Islandi - í tungunni, í bóklestri, í skáldskapariðkun, í höggmynd-
um Asmundar Sveinssonar; jafnvel flugvélarnar fá nöfn sín beint
úr norrænni goðafræði. Og þessi mikla nærvera hins liðna er, að
hans mati, öll til góðs. Honum kemur aldrei til hugar að arfleifð-
16 Kúltúra Islandii, bls. 40-54. Hér eftir er vitnað til þessa rits með blaðsíðutali í
meginmáli.