Skírnir - 01.04.1998, Blaðsíða 203
SKÍRNIR
ER ÍSLENSK ÞJÓÐERNISKENND FRÁ OZ ?
197
aldar. í þessu efni var leitað í smiðju manna eins og Þjóðverjans
Johanns Fichte (1762-1814) sem taldi að eitt helsta einkenni þjóð-
ar væri eigið tungumál; það fólk sem ætti sína eigin tungu væri
þjóð og að sama skapi væri sú þjóð í ánauð sem ekki ætti sér eigin
tungu enda sál hennar fjötruð og fátæk.22 Jón Aðils hélt því fram í
þessum anda að Islendingar gætu verið sérstaklega hróðugir af
tungu sinni, íslenskan varðveitti minninguna um liðna gullöld og
héldi lífi í íslenskum þjóðaranda. Krafan um sjálfstæði var þannig
frá upphafi byggð á tungumálinu eins og sést best af yfirlýsingu
Islendinga í sambandslaganefndinni 1918, sem lögð var fram við
upphaf viðræðna við Dani. Þar sagði að með tungunni hefði varð-
veist sérstakt þjóðerni, sérstakir siðir og sérstök menning: „Og
með tungunni hefur einnig meðvitundin um sérstöðu landsins
gagnvart frændþjóðum vorum ávallt lifað með þjóðinni. Þessi at-
riði, sérstök tunga og sérstök menning, teljum vér skapa oss
sögulegan og eðlilegan rétt til fullkomins sjálfstæðis."23 Enn þann
dag í dag keppast íslenskir stjórnmálamenn á hátíðarstundum við
að lýsa þeirri skoðun að tungan sé fjöregg sjálfstæðisins. Á fimm-
tíu ára afmæli íslenska lýðveldisins á Þingvöllum árið 1994 sagði
Matthías A. Mathiesen t.d. að forsenda sjálfstæðisbaráttunnar
hefði verið varðveisla íslenskrar tungu frá öndverðu og Páll Pét-
ursson taldi það öðru fremur vera tunguna sem gerði Islcndinga
að þjóð.24 Loks tók Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti ís-
lands, í sama streng: „Þjóðin átti sér sjálfstætt tungumál og á
þessu tungumáli hafði hún varðveitt minningar sínar, sögur sínar,
ljóð sín, frábrugðin minningum, sögum og ljóðum annarra þjóða.
Það var sá arfur sem gaf henni réttlætingu.“25 Kannski má kalla
22 Sjá Elie Kedourie, Nationalism, 4. útgáfa, aukin og endurbætt (Oxford, 1993),
bls. 56-61. Sigríður Matthíasdóttir hefur borið alþýðufyririestra Jóns Aðils
saman við hugmyndir Fichtes í greininni „Réttlæting þjóðernis", Skírnir, 169.
ár (vor 1995).
23 Sjá Björn Þórðarson, Alþingi og frelsisbardttan 1874-1944 (Reykjavík, 1951),
bls. 330.
24 Matthías Á. Mathiesen, „Sýnum drengskap og virðingu“ og Páll Pétursson,
„Tungan gerir Islendinga að þjóð“, Morgunbladið, 19. júní 1994.
25 Vigdís Finnbogadóttir, „Gleði og þakklæti efst í huga“, Morgunbladið, 19.
júní 1994.