Skírnir - 01.04.1998, Blaðsíða 267
SKÍRNIR
SJÁLFSMYNDIR AF MANNESKJUNNI
261
fyrr né síðar, en mér finnst hann eiga vel við um það svæði listarinnar
sem Kristín Gunnlaugsdóttir hefur gert að sínu:
„Umfram allt leitið eftir leik sem ykkur finnst þess virði að sé leik-
inn!“ Svo hljóða skilaboð djúpviturra öldunga listarinnar sem lista-
spírur nútímans ættu að hlusta eftir. Þegar leikurinn er fundinn, leik-
ið markvisst, leikið eins og líf ykkar og andleg sálarheill séu að veði,
enda er það svo. Fylgið fordæmi frönsku existentíalistanna og
skrautletrið orðin ég skal í hugskotum ykkar. Þó að öll sund sýnist
lokuð hagið ykkur sem allar ykkar gerðir hafi tilgang. Ef að lífið
virðist ekki bjóða upp á neinn leik, búið hann til, skáldið hann. Það
liggur í hlutarins eðli að betra er að hafa einhvern leik en engan. Þrátt
fyrir að listamannaleikurinn sé fullkomlega öruggur til árangurs, hef-
ur það ekki aukið vinsældir hans. Hann hefur reynst einn sá kröfu-
harðasti í samfélagi okkar og þeir eru sorglega fáir sem taka þátt í
honum. Nútímamaðurinn, dáleiddur af hugvitsamlegri tækni og
tækjum, hefur sáralítið samband við sinn innri andlega heim. Lista-
mannaleikurinn er algerlega leikinn í innri hciminum sem er gífurlega
umfangsmikið og flókið svæði sem er langt frá því að vera fullkann-
að. Tilgangur leiksins er raunveruleg vaka, upplifun og innsæi,
fullþroskun þeirra afla sem liggja óvirk í hjarta mannsins og huga.
Leikinn er aðeins hægt að leika af fólki sem komist hefur að þeirri
sérstöku niðurstöðu að meðvitund mannsins, hin svokallaða vöku-
vitund, er ekki æðsta stig mannlegrar vitundar heldur í raun aðeins
eitt afbrigði svefngöngu. Um leið og menn hafa komist að þessari
niðurstöðu er þeim fyrirmunað að sofa rótt, ný hvöt vex innra með
þeim, hungur eftir raunverulegri vöku, fullri meðvitund. Þeir gera sér
grein fyrir að það sem þeir heyra, sjá og vita er aðeins lítið brot af því
sem þeir gætu séð, heyrt eða vitað, að þeir hafa hingað til lifað í fá-
tæklegasta og óhreinasta herbergi hugans. Þeim býðst að ganga inn í
önnur, guðdómlega falleg, full af fjársjóðum, með gluggum og útsýni
til eilífðarinnar og óendanleikans.
Myndlist Kristínar hverfist ekki um hinn sýnilega veruleika. Hinn
ytri veruleiki, það sem augað sér, er yfirborð sem segir ekkert í sjálfu sér.
Handan þess er sannleikur sem er „ekta“ og „algildur". Á bak við allar
myndirnar er heildarmynd eða sýn frá ferðalagi. Myndirnar eru kyrr-
myndir eða augnabliksmyndir úr ferðinni. I einni af ferðabókum Krist-
ínar stendur skrifað: „Jæja, upp fór ég bláan stigann. Á fyrsta pallinum
voru margir menn í síðum ljósum kyrtlum, umluktir þessari bláu birtu.
Þeir horfðu út um gluggann og virtu fyrir sér landslagið.“ Listamaðurinn
sýnir okkur hvar hann vill vera, í hringlaga formi alheimsviskunnar, í
þögn og kyrrð miðjunnar.
Guðmundur Oddur Magnússon