Skírnir - 01.04.1998, Blaðsíða 247
SKÍRNIR
ÓLAFUR FERJUMAÐUR FRÁ SEYRU
241
Böðvars, Jóns Jónssonar „söngs" í Suddu. Sá var hagleiksmaður, vefari,
grenjaskytta, vesturfari og „hljómskær forsöngvari".
Um landafræðina gegnir svipuðu máli og um persónur; sumt heitir
sínu rétta nafni, öðru er lítillega breytt. Hvítá í Borgarfirði heitir t.d.
Jökulsá í skáldsögunni. En í Vesturheimi virðist sem örnefnum sé haldið
til haga. Það eykur fróðleiksgildi verksins sem er sérlega upplýsandi um
leiðir landans yfir Norður-Ameríku þvera og endilanga.
Samtenging skáldskaparins og sagnfræðinnar er oft undragóð í verk-
inu. Þannig er uppruni fíólínsins settur í samband við þann mann sem
þekktur cr í Islandssögunni fyrir að hafa efnt til dansleikja í Reykjavík.
Með fíólíninu fær ættarfylgjan, tónlistin, útrás og farveg og tengist því
„frelsi“ sem fylgdi Jörundi kóngi. Frelsið er þó ekki auðhöndlað. Jón
Sigurðsson forseti vakir að vísu yfir velferð sögupersóna og sendir séra
Jóni Grímssyni streng í fíólín Ólafs frá Kaupmannahöfn. En það er
táknrænt að öðlingurinn séra Jón skuli verða úti á leið sinni heim af
þjóðfundinum 1851. Og hundurinn sem nafni hans Sigurðsson gefur
honum fellur síðar fyrir kúlu hrakmennis. - Löngu síðar er Jón Sigurðs-
son enn „á ferð“ í sögunni: Hann stendur „eins og stytta" framan við
þinghúsið í Winnipeg; kannski er hann að minna á að nauðsynlegt sé að
standa vörð um langþráð frelsi.
Það er líka táknrænt að Ólafur skuli halda brott af Islandi 1874, á ári
„frelsisskrárinnar" þegar fagnað var 1000 ára byggðarafmæli á Islandi. Sú
för hans - ásamt ferðinni suður yfir Þrískóaheiði nokkrum árum fyrr -
minnir á ferð hins „sjálfstæða“ Bjarts í Sumarhúsum við upphaf og endi
skáldsögu Laxness. Það höfðu víst ekki allir íslendingar ástæðu til að
fagna árið 1874.
Bráðsnjöll er sú hugmynd að láta Dufferin lávarð verða örlagavald í
lífi Ólafs fíólín. Jafnt í veruleika sem skáldsögu var Dufferin á ferð bæði
á íslandi og á Gimli; síðarnefnda staðinn heimsótti hann sem landstjóri
Kanada og kom því til leiðar að hagur landnema vænkaðist nokkuð. I
skáldsögunni nýtur hann handlagni Ólafs í Islandsferðinni og launar
greiðann vestra löngu síðar. Ólafur þakkar á sinn hátt fyrir sig með nafn-
gift sonarins. Duffrín yngri opnar síðar leið lesandans að ýmsum „sann-
indum" Vesturheims, t.d. með því að dveljast um skeið meðal mennóníta
í Steinbach, ekki langt frá Winnipeg. Þannig fær lesandinn nærmynd af
þessum merka þjóðflokki sem hann hafði áður rekist á þegar Islendingar
héldu niður Rauðá á leið til fyrirheitna landsins; þá gátu þeir ekki stillt
sig um að snúa nafni þessa fólks upp í „menn ónýta“ (1:277).
Babtistinn John Taylor (1812-1884), fæddur í Bridgetown í Bar-
bados í Vestur-Indíum, gegndi mikilvægu hlutverki í lífi landnemanna á
Gimli. Hann var að vísu ekki hálfur Islendingur eins og Böðvar lætur
Móses Taylor vera með því að tengja tilurð hans veru Jörundar á íslandi
- og draga þannig örlagaþráð milli beggja hluta verksins. Aftur á móti
giftist fósturdóttir (og jafnframt bróðurdóttir) Johns Taylor, Susie,