Skagfirðingabók - 01.01.1999, Blaðsíða 40
SKAGFIRÐINGABÓK
Faðir Gunnars, Jóhann Magnússon frá Gilhaga, lengi bóndi á
Mælifellsá, gerði þessa vísu um Þorberg bróðurson sinn, þegar
þeir hittust einu sinni sem oftar. Þá bjó Jóhann í Reykjavík:
Það hefur mannleg meinin hert
og mörgum valdið sárum trega
hvernig Bakkus getur gert
guðsmyndina hroðalega.
Eitt sinn er Þorbergur var vegalaus í Reykjavík, leit hann sem
oftar inn til Gunnars frænda síns til stundarspjalls og lífsnær-
ingar. Þá átti Gunnar eða hafði ráð á tveimur steinkofum, sem
stóðu skammt frá Geithálsi, taldi þann stærri sumarbústað, en
hinn minni var ekki notaður, enda gluggalaus og ráðgáta til
hvers hann hafði verið byggður. Þetta verelsi fékk Þorbergur til
afnota endurgjaldslaust og taldi að það væri lakur skúti, sem
ekki væri betri en úti.
Stærð kofans að innanmáli var á að giska lengd Þorbergs, um
einn metri á breidd og tæplega manngengur á hæðina. Hurðin
gekk út sem betur fór, svo að ekki þurfti Þorbergur að hrófla
við fleti sínu til að komast inn. Ekki var kofinn einangraður né
með vatni, hita eða rafmagni. En Þorbergur komst þangað með
Lögbergsstrætisvagni eða á tveimur jafnfljótum. Það veit ég, að
oft hefur komið x huga Þorbergs vísa, sem Ólína Jónasdóttir
orti, er hún bjó í steinhúsinu að Vík í Staðarhreppi forðum:
Ég í steini bundinn bý,
bási meina þröngum.
Geisla hreina á þó í
andans leynigöngum.
Og þegar hann kom kaldur, svangur og þreyttur úr slagtogi
með Bakkusi og lagðist endilangur í steinkassann, þá er ég
hissa ef hann hefur ekki tautað vísu sýslufélaga síns, Haraldar
frá Kambi:
38