Jökull - 01.12.1976, Side 21
ókyrrast við Búrfellsstöð 15 km NV frá Heklu,
líklega vegna titrings í jörðu. Skjálftamælar
Veðurstofunnar á Kirkjubæjarklaustri, Akureyri
og í Reykjavik byrjuðu að greina þennan titr-
ing um 25 mínútum fyrir gos. Þessar stöðvar
voru í 80—200 km fjarlægð frá eldstöðvunum.
Titringurinn var samfelldur og jókst að styrk
(Mynd 3). Ef næmir jarðskjálftamælar hefðu
verið í gangi í nágrenni Heklu, er líklegt, að
þeir hefðu greint þennan titring nokkrum
stundum fyrr en mælar Veðurstofunnar. Um kl.
21:06 voru línurit á Kirkjubæjarklaustri orðin
illlæsileg vegna þess að línur runnu saman. A
þessu stigi hefði vaktmaður getað séð, að eitt-
livað óvenjulegt var á seyði, en þar sem allir
mælarnir skrá á Ijósnæman pappír í myrkri,
varð enginn þessa var, fyrr en linuritin voru
framkölluð eftir að gos var byrjað. Óróinn jókst
enn til muna kl. 21:18 og varð óreglulegri vegna
fjölda skjálfta, sem blönduðust titringnum.
Þessir skjálftar voru um 3.6—4.0 að Richter-
stærð. Eldur sást fyrst um kl. 21:23, en þá var
engan sérstakan skjálfta að sjá á línuritum.
Skjálftahrinan, sem fylgdi byrjun gossins, stóð
stutt yfir. Um miðnætti, 2y2 stundu síðar, var
titringur vart greinanlegur á skjálftaritum og
síðasti skjálftinn i þessari lirinu varð kl. 00:55
hinn 6. maí.
Næstu 15 daga voru skjálftar tíðir (Mynd 4).
Gos hætti í vesturhlíð Heklu 8. maí og í Suður-
gígum 10. maí. Eftir það gaus í Skjólkvíum til
20. maí og náðu skjálftar þar hámarki 16. maí
og síðari hluta 19. maí. Að morgni 20. maí
hættu skjálftar og gos í Hlíðargígum í Skjólkví-
um, en síðar um daginn opnaðist þar ný
sprunga um 1 km norður af stærsta Hlíðar-
gígnum og myndaði Öldugíga. Engir mælanlegir
skjálftar fylgdu opnun þessarar sprungu og brá
nú svo við, að engir skjálftar mældust næstu 6
daga. Hrina af skjálftum kom 30. maí, en ekki
er vitað, hvort þá urðu sýnilegar breytingar á
hegðun gossins. Mest allan júnímánuð var mjög
lítið um skjálfta, en lokahrina kom i byrjun
júlí, þegar gosi lauk.
Hinn 22. júní var komið upp sex skjálfta-
mælum vestan Heklu. Voru fjórir þeirra á
Suðurbjöllum, einn á Norðurbjöllum og einn
í Skriðufellsskógi norðan við Ásólfsstaði. Mæl-
arnir sýndu töluverðan titring með rikjandi
tíðni 1,5—3,0 Hz. Þessi titringur var svo veikur,
að hann kom ekki fram á mælum Veðurstofu
fjarri gosstöðvunum. Dró smám saman úr hon-
um eftir því sem kraftur gossins þvarr. Um 5.
júlí hætti gosið með hrinu af skjálftum allt að
3,9 að stærð. Dýpi þeirra var minna en 3 km,
upptök rétt vestur af Öldugígum. Þegar leið á
júlímánuð urðu skjálftarnir strjálli og dreifðust
út frá gosstöðvunum (Myndir 5 og 6).
Óreglur á ferðatíma P-bylgju á mælisvæðinu
vestan Heklu benda til þess að yfirborð lags 3
og lög ofan á því hallist um 10° til suðausturs.
Skjálftamælistöðvarnar vestan Heklu skráðu
marga skjálfta, sem ekki voru í tengslum við
gosið. Mest var um skjálfta frá Sandvatni sunn-
an Langjökuls, en þar var áköf skjálftahrina í
gangi allt sumarið. Aðrir skjálftar voru á
Reykjanesskaga, einnig nálægt Surtsey og í
Kötlu. Þrír skjálftar voru staðsettir á Land-
mannaafrétti austur og norðaustur af Heklu
(sjá Töflu 2 og Mynd 1). Eru þeir allir nærri
lengdarmælilínum, sem R. W. Decker setti upp
árið 1967. Endurmæling í september 1970 sýndi
markverða lengingu milli nokkurra mælipunkta,
sem líklega má rekja til þessara skjálfta. Einn
skjálftanna (28. júní) varð nærri Hrauneyjar-
felli og gæti verið í tengslum við sprungur sem
opnuðust í botni tilraunalóns við Langöldu í
júní 1970.
JÖKULL 26. ÁR 19