Dagblaðið Vísir - DV - 07.11.2014, Qupperneq 10
Helgarblað 7.–10. nóvember 201410 Fréttir
Ekki endilega betra
að fjarlægja barnið
Börn af erlendum uppruna eiga fremur á hættu á að verða fyrir líkamlegu ofbeldi
E
f við setjum þetta í samhengi
við kynferðislegt ofbeldi, þá
væri mjög hæpið að við mynd-
um setja barn inn á heimili
hjá geranda sem er dæmdur
fyrir að hafa beitt barnið kynferðis-
legu ofbeldi,“ segir María Gunnars-
dóttir, forstöðumaður Barnavernd-
ar Reykjanesbæjar, í samtali við
blaðamann. DV fjallaði í vikunni
um mál ungs drengs í Grindavík en
móðir hans var í lok október dæmd
í sex mánaða skilorðsbundið fang-
elsi fyrir að misþyrma honum bæði
andlega og líkamlega í janúar á síð-
asta ári. Hálfbróðir drengsins sagði í
samtali við DV að tilfellin væru fleiri
en það sem nefnt er í dómnum og
þá hafi móðirin haldið uppteknum
hætti eftir að dómurinn féll. Engu að
síður er drengurinn, sem nú er ell-
efu ára, enn á heimili móður sinn-
ar. María viðurkennir að henni finn-
ist sú ákvörðun, að senda drenginn
aftur til móður sinnar, skrítin en tek-
ur þó fram að hún þekki ekki ástæð-
urnar sem liggja að baki ákvörðun-
inni og geti því ekki lagt mat á þær.
Hildigunnur Árnadóttir, félagsráð-
gjafi Grindavíkurbæjar, vildi ekki tjá
sig um málið við DV þegar eftir því
var leitað.
Menningarmunur
á uppeldisaðferðum
„Þetta eru auðvitað bara matsat-
riði í einstöku máli. Þetta snýst
alltaf um bestu hagsmuni barns-
ins. Þannig að ef það er mat barna-
verndarnefndar og allra sem koma
að máli barnsins að hagsmunum
þess sé best borgið á heimilinu þá
gerum við ekki athugasemdir við
það,“ segir Steinunn Bergmann, fé-
lagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu, í
samtali við DV. Hún segir enn frem-
ur það ekki vera sjálfgefið að hags-
munum barnsins sé best borgið með
því að taka það af heimilinu. „Ótti við
það að vera tekið af heimilinu verður
bara til þess að börn segja ekki frá
ofbeldinu. Það er ekki það sem börn
vilja. Ég var nýlega á ráðstefnu í Nor-
egi þar sem börn innflytjenda sögðu
frá sinni reynslu. Þau töluðu sérstak-
lega um þetta. Þau vilja að ofbeldið
hætti, en þau vilja ekki að þau séu
tekin af heimilinu.“
Eins og fram kom í grein DV er
móðir drengsins frá Taílandi og talar
ekki íslensku. Faðir hans, sem sökum
greindarskerðingar er ekki metinn
hæfur til að sjá um drenginn, er hins
vegar íslenskur. Í rannsókn Barna-
verndarstofu frá árinu 2010 kemur
fram að 31% tilkynninga árið 2006
vörðuðu börn af erlendum uppruna
en heildarhlutfall barna af erlendum
uppruna á Íslandi var 8,3% á sama
tímabili. Þannig virðast börn
af erlendum upp-
runa fremur eiga á
hættu að verða fyrir
líkamlegu ofbeldi
en börn sem ekki
hafa erlendan bak-
grunn. María segir
að oft sé ákveðinn
menningarmun-
ur í þessum efn-
um. Hjá sumum
þjóðum sé það
viðtekin venja að
beita líkamleg-
um refsingum í
uppeldi barna.
Hún segir barna-
verndaryfirvöld
standa frammi
fyrir ákveðnu úrræðaleysi í þess-
um efnum en til dæmis sé oft erfitt
að veita uppeldislega ráðgjöf með
notkun túlks. Steinunn tekur und-
ir með Maríu: „Þess vegna höfum
við lagt áherslu á að benda fagfólki
á að kynna sér til dæmis opinberar
heimasíður í heimalandinu hjá aðil-
um sem eru að vinna á þessu sviði.
Það er mjög víða verið að leggja
áherslu á jákvæðar uppeldisaðferð-
ir og reyna að útrýma þessum líkam-
legu refsingum. Í flestum löndum er
til eitthvert form af barnavernd.“
Mikið í húfi
Hálfbróðir drengsins
gagnrýnir úrræðaleysi
barnaverndarnefndar í
málinu. Steinunn seg-
ir barnaverndarnefnd
hins vegar alltaf gera
áætlun um meðferð
máls og úrbætur. „Ef það
er opið barnaverndar-
mál þarna þá er vænt-
anlega slík áætlun í
gangi,“ segir hún. „ Svona
áætlanir eru gerðar til
tiltekins tíma en í lok
tímabilsins er farið yfir
og metið hvernig hefur
gengið. Stundum er mál-
um lokað eftir áætlun og
stundum er gerð önnur áætlun. Mál
geta þannig verið til vinnslu í mörg
ár,“ segir Steinunn og bætir því við
að ef foreldrar standist ekki áætlan-
ir þurfi að vega og meta hvort þurfi
að grípa til annarra úrræða. „Það er
metið út frá aðstæðum hverrar og
einnar fjölskyldu og barns hvaða
úrræðum þarf að beita. Það að taka
barn af heimili er mjög íþyngjandi
aðgerð fyrir barnið og ekki sjálfgef-
ið að vel takist til. Þannig að það er
mikið í húfi að gera barninu kleift
að geta búið hjá sínum foreldrum og
það er reynt ef þess er nokkur kostur
að börn fái að alast upp hjá sínum
kynforeldrum, með sínum systkin-
um og í sínu nærumhverfi.“
Binda vonir við
stækkun Barnahúss
María bendir á nauðsyn þess að efla
umræðuna um líkamlegt ofbeldi gegn
börnum. Umræðan um kynferðislegt
ofbeldi og heimilisofbeldi hafi verið
mjög hávær á undanförnum árum,
en aðilar í barnavernd hafi hins vegar
áhyggjur af því að enn telji sumir for-
eldrar allt í lagi að slá til barna sinna
í refsingarskyni. „Við þurfum að setja
líkamlegt ofbeldi gegn börnum upp á
sama plan og heimilisofbeldi og kyn-
ferðisofbeldi og efla umræðuna um
að líkamlegt ofbeldi á börnum sé ekki
samþykkt,“ segir hún.
María og Steinunn binda enn
fremur vonir við að Barnahús muni
nú, þegar starfsemin er komin í nýtt
og betra húsnæði, geta tekið við
börnum sem orðið hafa fyrir líkam-
legu ofbeldi. „Hingað til höfum við
ekki getað vísað þeim í Barnahús.
Það sama á við um heimilisofbeldi.
Vonandi, með stækkun Barnahúss,
þá getum við það,“ segir María. n
Áslaug Karen Jóhannsdóttir
aslaug@dv.is
María Gunnarsdóttir Forstöðumaður
Barnaverndar Reykjanesbæjar.
Steinunn Bergmann Félagsráðgjafi hjá
Barnaverndarstofu.
„Þetta
snýst
alltaf um bestu
hagsmuni
barnsins
Enn á heimili
móður sinnar
Drengurinn sem
DV fjallaði um í
vikunni er enn á
heimili móður sinnar
þrátt fyrir að hún
hafi verið dæmd í
héraðsdómi fyrir að
misþyrma honum.
3. nóv 2014
Rannsaka áhrif
mengunar
Sóttvarnalæknir er hefja umfangs-
mikla rannsókn á langtímaáhrif-
um gosmengunar frá eldgosinu í
Holuhrauni á heilsu almennings.
Þórólfur Guðnason, yfirlæknir í
sóttvörnum hjá Embætti land-
læknis, segir ekki mikið hægt að
segja um eðli rannsóknarinnar,
enda sé hún á frumstigi. Ríkis-
stjórnin samþykkti á þriðjudag
687 milljóna króna aukaframlag til
ýmissa stofnana vegna eldgossins
í Holuhrauni. Verkefni landlæknis
fellur þar undir og verður unnið á
næsta sex mánaða tímabili.
Aðspurður hvort sambæri-
legar rannsóknir hafi verið gerðar
áður segir Þórólfur þær ekki hafa
verið gerðar hér á landi. „En þær
hafa verið gerðar erlendis,“ segir
hann, „bæði varðandi gos og aðra
mengun á borð við iðnaðarmeng-
un. Til er dágóður fjöldi af slíkum
rannsóknum sem við höfum ver-
ið að vitna í þegar við erum að
tala um heilsufarsáhrif af völdum
SO2 [brennisteinsdíoxíðs],“ segir
hann og bendir á að töflur og ráð-
leggingar til fólks, sem yfirvöld
styðjast við varðandi loftgæði
vegna eldgossins, séu byggðar
á þessum rannsóknum. „Það er
eiginlega ekki hægt að benda á
eitthvert eitt gildi sem er vont eða
gott fyrir mismunandi aðila því
það getur verið mjög breytilegt
eftir einstaklingum.“
Varðandi langtímaáhrif segir
Þórólfur rannsóknir hafa sýnt
fram á auknar líkur á að fólk sem
hefur búið í námunda við eld-
fjöll, til dæmis í Japan, þar sem
er stöðug mengun af SO2, sé til
dæmis með nefrennsli og krónísk-
an hósta. Hins vegar sé ekki að
sjá að það séu neinar alvarlegar
heilsufarsafleiðingar. „Bæði hvað
varðar bráð áhrif og eins lang-
tímaáhrif þá er ekki hægt að segja
að þetta sé eitthvað bráðhættu-
legt, en vissulega geta þau valdið
öndunarfæraeinkennum,“ segir
Þórólfur að lokum.
„Sóknin“
sett í gang í
Reykjanesbæ
Bæjarráð Reykjanesbæjar hef-
ur samþykkt að hækka útsvar
og fasteignaskatt frá og með 1.
janúar 2015.
Eru þessar aðgerðir hluti
af „Sókninni“ – aðgerðum
sem miða að því að laga fjár-
hagsstöðu bæjarins sem er
mjög slæm samkvæmt skýrslu
KPMG.
DV hefur fjallað um málefni
Reykjanesbæjar að undan-
förnu og þá skýrslu KPMG sem
kom út um málið og var kynnt á
íbúafundi á dögunum.
Samkvæmt tillögunni sem
var samþykkt á fimmtudag af
bæjarráði þá mun útsvar hækka
úr 14,52 prósentum í 15,05 pró-
sent sem er hlutfallshækkun
upp á 3,62 prósent og er sú að-
gerð sögð bæta fjárhagsstöðu
bæjarsjóðs um 200 milljónir
króna. Þá mun fasteignaskattur
hækka úr 0,3 prósentustigum í
0,5 og er það talið leiða til tekju-
aukningar fyrir bæjarsjóð um
255 milljónir króna.
„Þessi blandaða leið ætti
að auka tekjur bæjarsjóðs
Reykjanesbæjar um 455 milj-
ónir króna á árinu 2015 mið-
að við núgildandi útsvarsstofn
og fasteignamat,“ segir í bókun
bæjarráðs.