Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.11.2009, Blaðsíða 41
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 5. tbl. 85. árg. 2009 37
senn og getur hjálpað lesandanum að
auka læsi á tilfinningar barna sem og
fullorðinna. Umfjöllunin um tilfinningar
gefur m.a. vísbendingu um hvernig barn
getur öðlast stjórn á þeim sér til þroska.
Hér er vitnað í rammatexta úr þessum
kafla sem ætti að verða lesandanum
minnistæður:
„Til að barn læri að þekkja tilfinningar
sínar þarf það að skynja þær í nærveru
manneskju sem þolir þær, getur
nafngreint þær og temprað. Þar er lagður
grunnur að getu barnsins, og síðar hins
fullorðna, til að takast á við tilfinningar á
heilbrigðan hátt.“
Í öðrum kafla um „Samhengi barnæsku
og fullorðinsára“ er gerð grein fyrir
hvernig reynsla frumbernskunnar kemur
til með að hafa áhrif alveg fram á
fullorðinsár þótt minningar um atvikin
geymist ekki í minni svo að hægt sé
að rifja þær upp. Langtímahegðun og
framkoma mótast einkum meðan heilinn,
einkum framheilinn, er að þroskast á
fyrstu árum ævinnar og þessi mótun fer
einkum fram í gagnkvæmum samskiptum
og það á eftir að skapa persónuleika
einstaklingsins. Skiptir þar mestu máli
að barnið geti á fyrstu árunum reitt sig
á aðra manneskju, sérstaklega þegar
því líður ekki vel. Þótt foreldrar séu
taldir mikilvægasta fullorðna fólkið í lífi
ungra barna ætti þriðji kaflinn um „Góðar
mömmur og vondar“ að hjálpa mæðrum
að átta sig á takmörkunum sínum og
að sætta sig við þær. Fjórði kaflinn
um „Andstæðar tilfinningar“ tengist fyrri
kaflanum um tilfinningar en fjallar af meiri
dýpt um blendnar, tvíbentar eða erfiðar
tilfinningar og hvernig beri að túlka þær í
ljósi þeirra miklu krafna sem ósjálfbjarga
barn gerir til foreldra sína. Í fimmta
kaflanum um „Heilaleikfimi“ er gerð grein
fyrir því hvernig heili barns þroskast
í hversdagslegum, gagnkvæmum
samskiptum við aðrar manneskjur og
umhverfi. Í því sambandi skipta tilfinningar
umönnunaraðila barnið mestu máli.
Gleði og ánægja næra heila barnsins
en depurð og afskiptaleysi standa í vegi
fyrir þroska þess. Af því er ljóst að barnið
dafnar ekki á næringunni einni saman
og umönnun líkamans, heldur jafnframt
á gleði og ánægju nánustu uppalenda. Í
kaflanum um „Rannsóknir á tengslum“ er
gerð grein fyrir þeim fræðum sem liggja
að baki kenningunni um geðtengsl. Þar
er lögð áhersla á læsi foreldra á óyrt
skilaboð barns og ekki síst á hæfni til að
hugsa um eigin hugarástand og að geta
tengt hugsanir við tilfinningar og sett þær
í sambandi við hversdagslega reynslu
og atvik. Í þessum efnum geta foreldrar
stundum þurft á stuðningi frá öðrum að
halda og þeir sem vilja hlúa að foreldrum
ungra barna geta hér orðið margs vísari
um hvernig þeir geta staðið að því. Í
kaflanum um „Áhrif streitu“ er meðal
annars fjallað um viðeigandi viðbrögð
foreldra við streitu og vanlíðan ungra
barna sem þau láta oft í ljós með gráti.
Þessi viðbrögð foreldranna geta orðið
barninu veganesti út í lífið til að stjórna
atburðum sem valda streitu og óróleika.
Einnig er fjallað um hvernig draga megi úr
skaðlegri streitu barna með fyrirsjáanlegu
skipulagi eða fyrirkomulagi í daglegu
lífi. Í kaflanum um „Meðgöngu“ er
hægt að dýpka þekkingu á því hvernig
streituhormónin verðandi móður geta haft
áhrif á fóstrið. Ef streita móður er mikil og
langvarandi á meðgöngunni getur reynst
nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að
draga úr skaðlegum áhrifum hennar. Í
kaflanum um „Fæðingu“ er meðal annars
fjallað um hve mikilvægt er að gefa
líðan fæðandi kvenna gaum og hvernig
líðan nýorðinnar móður getur haft áhrif
á myndun geðtengsla. Í kafla, þar sem
er fjallað um „Þörfina fyrir mömmu“, má
finna mikilvæg skilaboð til mæðra og
hvernig þær geta orðið barni sínu að
liði. Þótt þessi lesning höfði sérstaklega
til mæðra gildir sumt einnig fyrir feður.
Sérstakur hliðstæður kafli fyrir feður hefði
verið viðeigandi hér þar sem margir feður
taka þátt í umönnun ungra barna og
skipa veigameiri sess í lífi barna sinna
en tíðkaðist hjá feðrum fyrri kynslóða.
Þessu til stuðnings vitna ég í rammatexta
þar sem segir: „Eitt af því besta sem
hún gerir fyrir barnið er að njóta þess,“
og það á jafnt við mæður sem feður.
Þrír kaflar höfða hins vegar til beggja
foreldra: „Móðir fæðist“, „Faðir verður
til“ og „Hlutskipti foreldra“. Lestur þeirra
gerir það ljóst að mikilvægustu samskipti
barns eru við tvo umhyggjusama en
ólíka foreldra. Báðar foreldrar geta
fundið efni sem er óháð kyni foreldra í
köflunum „Glænýtt barn“, „Agi“ og „Hver
á að passa barnið?“. Í kaflanum „Afstaða
samfélagsins til barna og foreldra“
er foreldraábyrgð sett í samhengi
við samfélagsábyrgð til að styðja við
fjölskyldur ungra barna. Höfundur hikar
ekki við að gagnrýna algengt fyrirkomulag
í samfélaginu þar sem mjög ung börn
eru vistuð á leikskólum í allt að níu
klukkustundir samfellt og að auk þess sé
ekki alltaf vel mannað. Einnig gagnrýnir
hún að svo ung börn séu oft í fleiri en einu
mismunandi gæslufyrirkomulagi á degi
hverjum. Hún skorar á foreldra að íhuga
mikilvægi nærveru þeirra við ungbörn og
einnig á samfélagið að veita foreldrum
nauðsynlegan stuðning til að sinna hinu
tímafreka og krefjandi foreldrahlutverki.
Lestur bókarinnar kann á köflum að vera
ögrandi fyrir foreldra eða aðra uppalendur
þar sem hún kann að vera í andstöðu
við ríkjandi hugsun eða hefðir í uppeldi.
Jafnframt er umönnunaraðilum sýnt
mikið umburðarlyndi og mannskilningur
og verðleikar þeirra sem uppalenda
upphafnir. Reynsla af foreldrahlutverkinu
er sett í stærra samhengi við þroska
mannsins á lífsleiðinni.
Ég ásamt samstarfsfólki hef fengist
við rannsóknir og kennslu í hjúkrunar
og ljósmóðurfræði á fræðasviði
sem nefnist „geðvernd eftir fæðingu“
(perinatal mental health). Viðfangsefni
þess er þróun og hagnýting fræðilegrar
þekkingar um sálfélagsleg og geðræn
vand kvæði á meðgöngu, sængurlega,
nýbura, smábarna og ungbarnaskeið.
Fyrirliggjandi bók er mikilvægt framlag
á því sviði og ætti að vera fróðlegur og
gagnlegur lestur fyrir fagfólk sem og
almenning.
Marga Thome er prófessor við
hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og
forstöðumaður fræðasviðs geðverndar
eftir fæðingu.