Bændablaðið - 29.01.2015, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 29.01.2015, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 29. janúar 2015 Fyrir nokkrum árum var opnuð áhugaverð heimasíða með upplýsingar um það hvernig fólk getur stjórnað vaxtarlagi katta með því að rækta þá í krukku. Hugmyndin byggist á svipuðum forsendum og ræktun dvergtrjáa og er ætluð fólki sem er orðið leitt á að eiga ketti með hefðbundið vaxtarlag. Og hvers vegna ætti fólk svo sem að láta sér nægja hefðbundnar kisur ef það getur fengið þær með þeirri lögun sem það vill? Til að rækta krukkuketti er árangursríkast að taka kettlinginn eins ungan og mögulegt er, alls ekki eldri en vikugamlan, og koma honum fyrir í þröngri glerkrukku með þeirri lögun sem fullvaxin kisan á að vera. Bein nýfæddra kettlinga eru mjúk og sveigjanleg og því er auðvelt að koma kettlingnum í krukkuna áður en lokið er skrúfað á. Mýkt beinanna gerir það að verkum að kettlingarnir falla auðveldlega að lögun krukkunnar. Að sjálfsögðu þarf að gera ráð fyrir að kettlingurinn þurfi að anda og nærast og að það þurfi að hreinsa undan honum. Auðvelt er að sjá kisu fyrir súrefni með því að hafa lítil göt á krukkunni en til að næra og hreinsa undan henni er best að stinga röri í báða enda krukkunnar. Annað er notað til að fæða kisu en með hinu losar hún sig við úrgang. Þegar kötturinn hefur náð fullum vexti er krukkan brotin utan af honum og viti menn, hann heldur lögun sinni hvort sem um er að ræða ferhyrning, kúlu eða spíral. Varla þarf að taka það fram að á heimilum þar sem börn eru með kattaofnæmi er óþarfi að taka kisu úr krukkunni – hún getur verið þar alla ævi, börnum og fullorðnum til ánægju og augnayndis. Eins og glöggir lesendur eru eflaust búnir að átta sig á eru leiðbeiningarnar um gerð krukkukatta uppspuni frá rótum. Engum heilvita manni dettur í hug að setja lítinn kettling í krukku og ætlast til að hann vaxi þar. Heimasíðan var stofnuð af háskólastúdentum við MIT í Bandríkjunum og þykir eitthvert best lukkaða netgabb síðari tíma. Fréttir af síðunni fóru sem eldur í sinu um netið og kattarvinir og dýraverndunarsinnar sem gleyptu við sögunni áttu ekki orð til að lýsa hneykslan sinni og reiði. Reiðin gekk svo langt að málið var kært til bandarísku alríkislögreglunnar og hún sá sér ekki annað fært en að rannsaka það. Hugmyndin um að rækta spendýr í krukkum er ekki ný af nálinni því haft er fyrir satt að einn af keisurunum í Kína hafi látið steypa ráðgjafa sína inn í leirkrukkur þannig að höfuðið eitt stóð upp úr. Með þessu tryggði hann sér hollustu þeirra og kom í veg fyrir að þeir yfirgæfu hirðina án hans vitneskju. /VH Krukkukettir Eins og greint hefur verið frá í fréttum undanfarinna vikna hefur ekki tekist að manna í stöður fyrir dýralæknaþjónustu í Þingeyjarsýslum, á svæði fimm, og á Austurlandi, á svæði sex. Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga hefur nú sótt um styrk til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til Þróunarverkefnis í dýralæknaþjónustu. Þann 1. nóvember síðastliðinn rann út þjónustusamningur um almenna dýralæknaþjónustu á níu svæðum á landinu samkvæmt lögum um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum. Guðrún Tryggvadóttir, formaður Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga, segir að ein umsókn hafi borist fyrir svæði fimm (Þingeyjarsýslur). „Umsækjanda var síðar tjáð af starfsmanni Matvælastofnunar (MAST) að starfshlutfallið væri 50 prósent og um leið yrði vaktsvæðið minnkað um Svalbarðshrepp og Langanes. Aðeins eitt annað vaktsvæði á landinu fékk sömu meðhöndlun, svæði sex (Austurland). Dýralæknum á báðum þessum svæðum fannst þetta ekki boðlegt og gerðu ekki samning. Aftur var auglýst en enginn sótti um. Eins og staðan er núna eru því ekki til staðar þjónustusamningar við dýralækna á þessum tveimur svæðum, nema rétt austasta hlutanum; Svalbarðshreppi og Langanesi sem fylgir nýju vaktsvæði Vopnafjarðar. Frá 1. nóvember síðastliðnum var því ekki vakthafandi dýralæknir á þessum svæðum og margir dagar sem enginn var á vakt og benti hver á annan. Frá því í desember hefur vaktþjónustan verið leyst tímabundið og núverandi vaktaskipulag nær til 1. febrúar. Dýralæknir á Vopnafirði hefur til að mynda verið vakthafandi í Þingeyjarsýslum síðastliðna 11 daga. Frá og með 24. janúar og út mánuðinn verða dýralæknar á Húsavík á vakt. Við erum ekki að setja okkur upp á móti því að vakthafandi dýralæknir starfi í Vopnafirði en hitt er algjörlega óásættanlegt að ekki séu til staðar þjónustusamningar í Þingeyjarsýslum að stærstum hluta og á Austurlandi. Þegar upp koma bráðatilfelli er enginn dýralæknir á vakt hér í sýslunni heilu vikurnar. Þó svo að dýralæknir sé skráður á vakt á Vopnafirði er það ekki boðlegt fyrir bændur í Suður-Þingeyjarsýslu, en þar er um að ræða upp í 3 tíma akstur og viðkomandi bráðatilfelli ekki lengur á lífi. Bændum ber á sama tíma samkvæmt nýjum lögum um dýravelferð að sjá til þess að sjúkar eða særðar skepnur fái ávallt tilhlýðilega læknismeðferð. Núverandi aðstæður bjóða ekki upp á það að bændur geti fengið dýralækni sé þess þörf. Engin lausn er í sjónmáli og ekki virðist vera til fjármagn til að hægt sé að tryggja þessa þjónustusamninga. Mikil óánægja er meðal bændanna hér í sýslunni og þá sérstaklega kúabænda sem nota þjónustuna mun meira.“ Þróunarverkefni í dýralæknaþjónustu „Þegar við fórum að velta því upp hvernig þetta þyrfti að vera og hvernig við vildum sjá dýralæknaþjónustuna í héraðinu voru ákveðin lykilorð sem okkur fannst skína í gegnum alla umræðuna; það að fyrirbyggja, auka þekkingu, nýta nútímatækni og auka hagkvæmni í rekstri. Þessar hugmyndir leiddu af sér Þróunarverkefni í dýralæknaþjónustu. Hugsunin í því verkefni er sú, að auðveldara er að fyrirbyggja en að meðhöndla. Ávinningurinn er augljós; heilbrigðari búfénaður, minni vinna og betri afkoma. Aukin þekking bænda á dýraheilbrigði er líka mikilvægur þáttur. Tæknin sem við búum við í dag býður upp á fjölbreyttari lausnir og útfærslur á meðhöndlun sem ekki var í boði fyrir nokkrum árum. Allt þarf þetta svo að skila hagkvæmni í rekstri. Við vildum sem sagt sjá dýralækni sem kæmi inn á búin og gerði áætlun með bóndanum um fyrirbyggjandi aðgerðir til varnar fóðrunarsjúkdómum eins og súrdoða, júgurbólgu, ófrjósemi í nautgripum, sníkjudýravandamálum og fleiru. Dýralæknirinn héldi einnig námskeið og fræðslufyrirlestra fyrir bændur og ráðunauta og stuðlaði þannig að aukinni þekkingu. Bændur fengju þannig tækifæri til þess að nýta sérfræðiþekkingu dýralæknis til að bæta búreksturinn en ljóst er að góð dýralæknaþjónusta er ein af grunnforsendum þess að unnt sé að ná bættum árangri í búskap og auka velferð búfjár. Unnið hefur verið í miklum og góðum tengslum við Bændasamtökin með sérstöku liðsinni Þorsteins Ólafssonar dýralæknis og MAST. Nú liggur fyrir umsókn í Framleiðnisjóð landbúnaðarins um þetta þróunarverkefni sem gengur út á nýjar áherslur í dýralækningum. Verkefnið er hugsað til þriggja ára og er lagt upp með það hér í Suður-Þingeyjarsýslu. Svar Framleiðnisjóðs liggur þó væntanlega ekki fyrir fyrr en eftir mánuð en það er grundvöllur þess að hægt sé að vinna verkefnið áfram.“ /smh Þróunarverkefni í dýralæknaþjónustu í Suður-Þingeyjarsýslu: Nýjar áherslur á fyrirhyggju og forvarnir STEKKUR Ný reglugerð um matvæla- merkingar tók gildi hér á landi 19. janúar síðastliðinn. Frestur er til 13. maí 2015 til að uppfylla reglurnar hér á landi samkvæmt innleiðingareglugerðinni. Um nokkuð róttækar breytingar er að ræða í ákveðnum tilvikum, til dæmis varðandi kjötmerkingar. Til að mynda verður skylt að geta um uppruna á svínakjöti, kindakjöti, geitakjöti og fuglakjöti – fersku og frosnu. Hingað til hefur aðeins verið skylt að geta um uppruna nautakjöts. Öflugri neytendavernd Markmið reglugerðarinnar er að tryggja öflugri neytendavernd í tengslum við matvælaupplýsingar. Reglugerðin gerir kröfu um skýrari, ítarlegri og nákvæmari upplýsingar um innihald matvæla. Hún gildir á öllum stigum matvælaferlisins þegar starfsemi varðar miðlun matvælaupplýsinga til neytenda. Hún gildir um öll matvæli sem ætluð eru neytendum, þ.m.t. matvæli sem stóreldhús afgreiða og matvæli sem ætluð eru fyrir stóreldhús. Jónína Stefánsdóttir, fagsviðs- stjóri stjórnsýslu og löggjafar hjá Matvælastofnun, segir að eftirlitið verði hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga í verslunum, veitingastöðum og sumum framleiðslufyrirtækjum, það er þeim fyrirtækjum sem nú eru undir eftirliti heilbrigðiseftirlitsins, en hjá Matvælastofnun í þeim framleiðslufyrirtækjum, með dýraafurðir, sem Matvælastofnun hefur nú eftirlit með. Þessi reglugerð kemur í stað fjögurra eldri en nálgast má frekari upplýsingar um hana á vef Matvælastofnunar: http:// mast . is /matvael i /merkingar/ almennarmerkingar/. /smh Nýjar reglur um matvælamerkingar: Merkja verður allt kjöt með uppruna Helstu atriði í nýju reglugerðinni: • Leturstærð: Krafa er um að merkingar skulu vera læsilegar, en að auki er sett lágmarks- leturstærð lágstafa 1,2 mm á hæð. Undantekningar gilda um smáar pakkningar • Ofnæmisvaldar: Neytendur eiga rétt á upplýsingum um ofnæmisvalda í innihaldi allra matvæla. • Óforpökkuð matvæli: Í innleiðingareglugerð kemur fram að upplýsingar sem seljanda er skylt að veita um ofnæmisvalda við markaðssetningu óforpakkaðra matvæla, er heimilt að gefa upp á hvaða hátt sem er, þ.m.t. munnlega. Ef upplýsingarnar eru gefnar munnlega verður seljandi að gefa það til kynna á sýnilegan hátt að starfsfólk veiti nánari upplýsingar s.s. með merkimiða, á matseðli eða á skilti þar sem neytandi velur matvælin. • Forpökkuð matvæli: Á forpökkuðum matvælum er ný krafa um að ofnæmisvaldar skuli vera með áherslu s.s. litarbreytingu eða feitletrun í innihaldslýsingu forpakkaðra matvæla. • Frystidagsetning: Krafa er um merkingu frystidagsetningar á fryst kjöt, frystar unnar kjötvörur og frystar óunnar lagarafurðir (=fiskur, lindýr, krabbadýr). • Uppruni: Áfram er krafa um að upplýsa um uppruna ef skortur á þeim upplýsingum getur verið villandi. Skylt verður að upplýsa um uppruna á svínakjöti, kindakjöti, geitakjöti, fuglakjöti – fersku og frosnu. Að auki verður krafa um upplýsingar um uppruna aðalhráefnis, ef uppruni vöru er gefinn upp og er ekki sá sami og uppruni aðalhráefnis. Komin er út reglugerð ESB nr. 1337/2013 um upprunamerkingar á kjöti sem lýsir útfærslu þessara merkinga. • Geymsluþol: Í reglugerð ESB kemur fram að litið er á matvæli sem heilsuskaðleg eftir síðasta notkunardag og því er ekki leyfilegt að selja þau eftir „notist eigi síðar en“ dagsetningu. Hins vegar verður leyfilegt að selja matvæli áfram eftir „best fyrir“ dagsetningu. „Best fyrir“ lágmarks- geymsluþolsmerkingu má því ekki nota á tilbúin matvæli ef hætta er á að sjúkdómsvaldandi örverur geti fjölgað sér í þeim. • Pökkunardagur: Íslenska ákvæðið um að merkja skuli pökkunardag á kælivörur fellur út. • Fjarsala: Krafa er um að skylduupplýsingar séu aðgengilegar fyrir neytendur áður en kaup eru ákveðin og við afhendingu. • Eftirlíkingar/hliðstæður: Ef notað er staðgengilshráefni t.d. pizzatoppur í stað osts, á það að koma fram við vöruheiti. • Vatnsinnihald: Ef kjötvörur og fiskafurðir, sem líta úr eins og heil stykki, innihalda meira en 5% af viðbættu vatni á það að koma fram við heiti vöru. Viðbætt vatn á alltaf að koma fram í innihaldslýsingu á kjöti, unnum kjötvörum (meat preparations) og óunnum fisk og óunnum lagarafurðum (unprocessed fishery products and unprocessed bivalve molluscs). • Viðbætt prótein af öðrum uppruna: Viðbætt prótein af öðrum dýrauppruna sem bætt í kjötafurðir (meat products), unnar kjötvörur (meat preparations) og lagarafurðir (fishery products) þurfa að koma fram við í vöru. • Samsett kjöt: Kjötafurðir (meat products), unnar kjötvörur (meat preparations) og lagarafurðir (fishery products) sem líta út fyrir að vera heil stykki, en eru samsett úr bitum, eiga að merkjast „samsett úr stykkjum úr kjöti“ og „samsett úr stykkjum úr fiski“. • Nanótækni: Innihaldsefni sem eru framleidd úr nanóefnum eiga að merkjast með „nanó“ í innihaldslýsingu. • Jurtaolía og jurtafeiti: Merkja á úr hvaða plöntu olían/feitin er unnin. • Reglur um næringargildi eru breyttar. Upplýsingar um næringargildi verða að vera samkvæmt nýju reglunum. • Skylt verður að næringargildismerkja flest forpökkuð matvæli frá 13. desember 2016. Undantekningar koma fram í V. viðauka og 4. tl. 16. greinar. • Leyft verður að dreifa matvælum eftir „best fyrir“ dagsetningu. Það ber þó að aðgreina útrunnin matvæli með skýrum hætti í verslunum frá matvælum sem eru ekki komin fram yfir dagsetningu lágmarksgeymsluþols.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.