Bændablaðið - 29.01.2015, Side 36
36 Bændablaðið | Fimmtudagur 29. janúar 2015
Vinsælasta bananayrki í heimi
og bananinn sem við þekkjum,
Cavendish, hefur átt undir högg
að sækja undanfarin ár. Ástæðan
fyrir þessu er sveppurinn
Fusarium sem hefur breiðst hratt
út og drepur bananaplöntur.
Útbreiðsla sveppsins hefur
verið frá Asíu til Afríku og Mið-
Austurlanda. Í yfirlýsingu frá FAO
- Matvæla- og landbúnaðarstofnun
Sameinuðu þjóðanna segir að
kostnaður við að bjarga yrkinu
sé að minnsta kosti 47 milljónir
Bandaríkjadala, um 6,3
milljarðar íslenskar
krónur.
Cavendish viðkvæmt
fyrir Fusarium
Sveppurinn, sem kallast fullu nafni
Fusarium oxysporum f.sp. cubense
TR4, hefur herjað á bananarækt í
Asíu í rúm tuttugu ár og gert mikinn
usla í Kína, Indónesíu, Malasíu og
Taívan. Árið 2013 varð hans fyrst
vart í Afríku og síðan þá hefur hann
verið að breiðast út þar sem bananar
eru ræktaðir í álfunni.
Helsta ástæðan fyrir miklum
áhyggjum manna á sveppasýkingunni
er að nánast allir bananar sem
framleiddir eru og settir á markað
eru af yrkinu Cavendish og það er
einstaklega
v i ð k v æ m t
fyrir sýk ingu
og drep-
ast nán-
ast allar
plöntur
af því
yrki vegna
hennar.
Ríkjandi yrki á
markaði
Yrkið Cavendish þykir bragðgott
og auðvelt í flutningum vegna þess
hvað það geymist lengi og margir á
Vesturlöndum hafa aldrei smakkað
aðra gerð. Cavendish hefur verið
ríkjandi á markaði frá 1950 þegar
yrkið Gros Michel dó út vegna
annarrar Fusarium-sýkingar.
Undanfarin ár hefur verið reynt
að finna yrki sem getur komið í stað
Cavendish en þær prófanir skilað litlu.
Sveppurinn hefur lagst á mörg þeirra
og þau sem þola hann hafa ekki reynst
eins bragðgóð og með eins langan
geymslutíma og Cavendish. /VH
Utan úr heimi
Danmörk:
Lífeyrissjóður fjárfestir
í landbúnaði
Það er ekki einungis hér á landi
sem fjárfestingar lífeyrissjóða eru
til umfjöllunar, enda mikilvægt að
fjárfest sé í tryggum verkefnum
sem skila fjármagni til lengri tíma.
Danski lífeyrissjóðurinn AP
Pension fór fyrir rúmu ári síðan að
fikra sig inn í þarlendan landbúnað
með því að fjárfesta í nokkrum
álitlegum bújörðum enda telur
sjóðurinn að afar áhugavert sé að
fjárfesta í landbúnaði vegna öryggis
í fjárfestingu á landbúnaðarlandi.
Sjóðurinn leigir svo jarðirnar út til
ungra bænda og um leið og hann
fjárfestir þá auðveldar hann ungum
bændum að hefja búskap með því að
leigja reksturinn til þeirra.
12 milljarða sjóður
Í tengslum við þetta landbúnaðar-
verkefni AP Pension var stofnað
sérstakt fjárfestingafélag sem
heitir Dansk Farmland. Inn í það
fjárfestingafélag voru svo lagðir 12
milljarðar íslenskra króna, sem kann
að þykja há upphæð en þá er rétt að
benda á að AP Pension veltir árlega
nærri tvö þúsund milljörðum króna
svo þessir 12 milljarðar eru ekki hátt
hlutfall heildarveltunnar. Fyrsta búið
sem sjóðurinn keypti var kúabú með
220 kýr á Sjálandi, en síðan hefur
verið fjárfest í alls 10 bújörðum og
hefur helmingur stofnfjárins verið
notaður í það eða um 6 milljarðar
króna.
Bara góðar bújarðir
Fjárfestingakerfið sem sjóðurinn
notar byggist á því að ungir bændur
geta sett sig í samband við sjóðinn
og boðið honum að skoða álitlegan
fjárfestingakost. Sjóðurinn setur svo
saman teymi ráðunauta sem gerir
úttekt á viðkomandi bújörð m.m.
og leggur mat á hæfni og færni hins
unga bónda. Gangi allt upp, er málið
sent áfram til stjórnar sjóðsins þar
sem hin endanlega ákvörðun er tekin.
Sjóðurinn hefur til þessa lagt áherslu
á að kaupa bújarðir sem geta staðið
sterkar í samkeppninni í framtíðinni
og eru því allar jarðir sem keyptar
eru í stærri kantinum með töluvert
umsvifamikinn rekstur.
Gera 10 ára samninga
Grunnhugmyndin er í raun frekar
einföld. AP Pension á landið og
byggingarnar og leigir til bóndans
til 10 ára. Bóndinn kaupir svo sjálfur
tæki og skepnur og fjármagnar
sjóðurinn þau kaup ekki. Bónd-
inn greiðir svo eins konar ársleigu
sem nemur 5,2% af kaupverði
jarðarinnar og 6,5% af kaupverði
bygginganna en reki hann búið
með hagnaði heldur hann honum
að sjálfsögðu. Þegar 10 ár eru liðin
stendur bóndanum til boða að kaupa
jörðina og byggingarnar á kaupverði
sem er þegar ákveðið við undirskrift
samningsins. Þar er t.d. kveðið á um
að hækki landverð almennt í landinu,
þá geti leigutakinn þó keypt jörðina
með 20% afslætti af hækkuninni.
Vænta 6% ávöxtunar
Sjóðurinn væntir þess að ná 6%
ávöxtun með þessari aðferð,
en þá hefur verið tekið tillit til
áætlaðrar hækkunar jarðarinnar á
samningstímanum. Sérfræðingar
sjóðsins hafa metið það svo, að
líkurnar á því að jarðarverð lækki
verulega frá því sem nú er, séu litlar
enda hefur landverð í Danmörku ekki
verið lægra í áraraðir. Landverð hefur
oft fylgt kornverði og er það sem
kunnugt er afar lágt nú, en flestir hafa
trú á því að það muni brátt hækka
á ný með tilheyrandi áhrifum á
landverð.
Ekki boðið hverjum sem er
Sjóðurinn hefur til þessa valið af
mikilli nákvæmni þá leigutaka sem
fá þessar kostajarðir og þar hefur
hver og einn þurft að sanna sig.
Flestir hafa reynslu af búrekstri sem
bústjórar annarra búa og hafa þar sýnt
hæfni í búrekstri. Hugmyndafræðin
að baki þessu vali lífeyrissjóðsins er
að þeir gera það sem þeir eru bestir í,
þ.e. að sjá um fjármögnun og mat á
fjárfestingakostum og fá svo til þess
unga bændur sem eru bestir í því að
sjá um skepnur og akuryrkju.
24 ára með 430 kýr
Einn af þeim ungu bændum sem hafa
notið góðs af þessari fjárfestingaleið
er hinn 24 ára Jacob Therkildsens.
Hann er lærður bóndi með
framhaldsmenntun í búrekstri og
hafði frá útskrift sinni sýnt að hann
var hörkuduglegur rekstrarmaður.
Síðasta vetur fór allstórt kúabú
á Jótlandi í þrot og sá Jacob þar
töluverða möguleika og setti sig í
samband við lífeyrissjóðinn. Þar
fóru sérfræðingar á stúfana og
mátu jörðina og byggingar ásamt
mögulegum rekstri og úr varð að
sjóðurinn keypti kúabúið, fjós og
aðrar byggingar fyrir 430 kýr ásamt
300 hektara landi.
Dýrt að kaupa bú
Í tilfelli Jacobs var staðan þannig að
kaupverð jarðarinnar var í kringum
800–900 milljónir króna, nokkuð
sem hefði verið næsta ómögulegt
að fjármagna fyrir ungan mann.
Með aðkomu lífeyrissjóðsins
þurfti Jacob hins vegar einungis að
fjármagna tæki og skepnur og nægðu
100 milljónir til þess og þá upphæð
gat hann fjármagnað í gegnum
viðskiptabanka sinn.
Allt í hers höndum
Þegar Jacob tók við var margt í
niðurníðslu eins og títt er þegar
gjaldþrot verða á kúabúum, enda
lítið til af fjármunum í viðhald. En
það voru ekki bara byggingarnar
sem þurftu viðhald, kýrnar höfðu
verið illa hirtar í nokkurn tíma og
júgurheilbrigði ekki gott. Hann
kallaði því til funda helstu ráðu-
nauta héraðsins og gerð var raunhæf
áætlun um viðhald og endurbætur
ásamt áætlun um það hvernig bæta
mætti kýrnar og mjólkurgæðin. Hann
réð svo til sín fimm starfsmenn og
fór af miklum krafti af stað. Í dag
er staðan eiginlega hreint ótrúlega
góð, kýrnar gefa nú af sér um 30 kíló
mjólkur á dag í stað 23 kílóa áður
og mjólkurgæðin eru nú í góðu lagi.
Leggur 4 milljónir fyrir árlega
Strax í upphafi var gerð áætlun um
rekstur búsins og hve vænta mætti
mikillar uppsöfnunar á eigin fé,
sem svo nýtist sem eigið framlag
verði tekið lán til kaupanna að 10
árum liðnum. Í tilfelli Jacobs er gert
ráð fyrir að hann geti lagt fyrir 200
þúsund danskar krónur á ári, þ.e. um
4 milljónir íslenskar krónur, sem nýst
geta svo sem stofnframlag að 10
árum liðnum. Þá gerir rekstraráætlun
lífeyrissjóðsins ráð fyrir að ungir
bændur vilji lifa lífinu lifandi og því
eru þessum ungu bændum reiknuð
allgóð laun eða 500 þúsund danskar
krónur á ári, þ.e. eftir greiðslu á
leigu, hita og rafmagni. Það gera 10
milljónir í árstekjur fyrir skatt.
Gott fyrir ungu bændurna
Það er samdóma álit flestra að
innkoma lífeyrissjóðsins inn í
landbúnaðinn hafi haft góð áhrif á
danskan landbúnað og opnað augu
forsvarsmanna annarra sjóða einnig
gagnvart þessum fjárfestingakosti.
Þá hefur þetta gert það að verkum
að ungir og kraftmiklir bændur geta
strax farið að beita kröftum sínum
á stórum búum í stað þess að byrja
smátt og stækka búin hægt og bítandi.
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafafyrirtækinu SEGES P/S
Ráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar
sagði í erindi á ráðstefnu um
landbúnaðarmál fyrir skömmu
að lífræn ræktun þyrfti ekki
alltaf að vera betri en ræktun þar
sem notaðar væru erfðabreyttar
plöntur, illgresis- og skordýraeitur
og tilbúinn áburður.
Máli sínu til stuðnings sagði
ráðgjafinn, Krebs lávarður, að lífræn
ræktun kallaði á meiri landnotkun
en tæknivædd þar sem uppskera
á hektara væri minni en í lífrænni
ræktun. Hann sagði að með auknum
mannfjölda þurfi sífellt meira land til
ræktunar og afrakstur ræktunarinnar
skipti því miklu máli, sérstaklega
á svæðum þar sem ræktunarland
er takmarkað. Ráðgjafinn benti á
að því minna land sem brotið væri
til ræktunnr því minna losnaði
af gróðurhúsalofttegundum út í
andrúmsloftið.
Talið er að um 10% gróður-
húsalofttegunda sem fara út í
andrúmsloftið á ári séu vegna
landbúnaðar og að það magn aukist
í hvert skipti sem nýtt land er brotið
undir ræktun.
Krebs sagði einnig að ekkert benti
til að lífrænt ræktuð matvæli væru
næringarríkari en matur ræktaður
með tæknivæddum aðferðum
og að þeir sem versluðu lífrænt
ræktuð matvæli fengju minna fyrir
peninginn en þeir sem versluðu
matvæli úr tæknivæddri ræktun.
/VH
Álitamál í ræktun:
Lífræn ræktun ekki
endilega betri
− að mati ráðgjafa bresku ríkisstjórnarinnar
Sveppasýking ógnar bönunum:
Síðasti
bananinn
AP Pension stofnaði sérstakt
fjárfestingafélag sem heitir Dansk
Farmland.